Sviptingar á Öðlingamótinu – Stefán efsturÞað var sannarlega hart barist í sjöttu og næstsíðustu umferð Skákmóts öðlinga sem fram fór í gærkveld þar sem fjórum orrustum af ellefu lauk með skiptum hlut. Á efsta borði lagði hinsvegar Stefán Arnalds (2007) Ólaf Gísla Jónsson (1904) með svörtu eftir að hafa verið mjög tæpur á tíma drjúgan hluta skákar sem telst reyndar ekki til tíðinda þegar Stefán á í hlut. Jafntefli varð á öðru borði þar sem Sigurður Daði Sigfússon (2299) stýrði hvítu gegn Þorvarði F. Ólafssyni (2195) en útlit var fyrir sigur þess fyrrnefnda vegna afar tæps tíma Þorvarðar. Sigurður Daði notaði hinsvegar skyndilega tíma sinn nánast í botn og skömmu síðar gátu þeir félagar lítið annað gert en rétt fram sáttarhönd.

IMG_8055

Suðurnesja-skákkennarinn Siguringi Sigurjónsson er í toppbaráttunni.

Á þriðja borði hafði Siguringi Sigurjónsson (1971) betur gegn Árna H. Kristjánssyni (1894) og heldur því áfram í baráttu efstu manna. Ekkert var um óvænt úrslit ef frá er skilinn öruggur sigur Kristjáns Geirssonar (1492) á Herði Garðarssyni (1731) en styrkur Kristjáns er augljóslega mun meiri en stigin segja til um enda er hann að hala inn um 80 Elo-stigum.

Fyrir lokaumferðina er Stefán Arnalds efstur með 5 vinninga en hann hefur hvítt gegn hinum margreynda Þór Valtýssyni næstkomandi miðvikudagskvöld. Jafnir í 2.-3. sæti með 4,5 vinning eru Þorvarður og Siguringi en þeir mætast innbyrðis. Fjórir keppendur koma næstir með 4 vinninga og því ljóst að úrslit ráðast ekki fyrr en síðla miðvikudagskvölds en klukkurnar verða settar í gang á slaginu 19.30.

IMG_8052

Elo-stigin geta blekkt þegar menn hafa ekki teflt lengi. Það á sannarlega við um Kristján Geirsson sem hefur mokað inn stigum.

Minnum jafnframt á hraðskákmót öðlinga sem fer fram miðvikudaginn 18. maí en að því loknu mun fara fram verðlaunaafhending fyrir Skákmót öðlinga.