36 lið mættu til leiks í Jólamót grunnskóla Reykjavíkur sem fór fram í gær í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur en félagið heldur mótið í samstarfi við Skóla- og frístundasvið. Mótinu var skipt í þrennt og hófust leikar kl. 9.30 þegar börn úr 1.-3. bekk mættu til leiks, kl. 12.30 var svo komið að 4.-7. bekk og að lokum 8.-10. bekk sem hóf taflmennsku kl. 15.30. Þetta þrískipta fyrirkomulag hefur reynst vel þar sem fjölmenni á skákstað verður ekki óhóflegt og allar aðstæður verða viðráðanlegri. Tefldar voru sex umferðir með tímamörkunum 5+3 (5 mín á alla skákina auk 3 sek viðbótartíma eftir hvern leik). Mótahald gekk vel fyrir sig og var dagskrá lokið uppúr kl. 17.30. Keppendur voru allir til fyrirmyndar og á öllum getustigum, allt frá byrjendum til mikilla reynslubolta. Gaman var að sjá áhorfendur á staðnum þar sem foreldrar og aðrir ættingjar fylgdust af kostgæfni með ungdómnum spreyta sig við skákborðin og ekki skemmdi fyrir að geta gætt sér á ljúffengum veigum í Birnu-kaffi. Lítum á úrslitin.
1.-3. bekkur
Átta lið kepptu í yngsta flokknum og sigraði stúlknasveit Rimaskóla með 15,5 vinning en pistlahöfundi er ekki kunnugt um að það hafi nokkurn tíma gerst að stúlknasveit hafi áður sigrað í opnum flokki í mótinu – ábendingar vel þegnar! Jöfn í 2.-3. sæti með 13,5 vinning voru lið Háteigsskóla og Ingunnarskóla þar sem sá fyrrnefndi hlaut annað sætið á oddastigum (tiebreaks). Lokastaðan
4.-7. bekkur
Að venju var þetta fjölmennasti flokkurinn en að þessu sinni voru liðin átján talsins. Úr varð mjög jöfn og spennandi barátta og ljóst var að ekkert lið myndi stinga af en til marks um það munaði að lokum aðeins 6 vinningum á efsta sætinu og því tólfta! Svo fór að A-lið Landakotsskóla sigraði með 18 vinninga en A-lið Rimaskóla og A-lið Háteigsskóla voru jöfn í 2.-3. sæti með 16,5 vinning þar sem Rimaskóli hlaut annað sætið á oddastigum. Verðlaun stúlknasveita hlaut Háteigsskóli sem var sjónarmun á undan stúlknasveit Rimaskóla. Lokastaðan
8.-10. bekkur
Tíu lið leiddu saman hesta sína á unglingastiginu og snemma varð ljóst að baráttan um sigurinn myndi standa á milli Hlíðaskóla og Rimaskóla en bæði lið hafa á að skipa reynslumiklum skákmönnum. Fyrir lokaumferðina hafði Hlíðaskóli hálfs vinnings forskot og þar sem bæði lið unnu með sama mun í henni breyttist staðan ekki á toppnum og Hlíðaskóli kom fyrstur í mark með 20 vinninga en Rimaskóli hlaut 19,5 vinning. A-sveit Laugalækjarskóla varð þriðja með 14,5 vinning. Verðlaun stúlknasveita hlaut Rimaskóli. Lokastaðan