SÞR #7: Ekkert fær Stefán Bergsson stöðvað



Það gekk á ýmsu í skáksal Taflfélags Reykjavíkur þegar 7.umferð Skákþingsins var tefld. Teflendur misstu af mörgum vænlegum leikjum, skákir skiptu oft um eigendur og stundum voru sveiflurnar svo miklar að skákreiknar brunnu yfir. Eitt var það þó sem veitti þessari samkomu stöðugleika og festu; taflmennska Stefáns Bergssonar á 1.borði.

IMG_9712

Stefán Bergsson sýndi aðdáunarverða tækni í hróksendatafli.

Akureyríski aflraunamaðurinn, Stefán Steingrímur Bergsson, mætti til leiks vopnaður mannganginum og eigin hugviti gegn FIDE-meistaranum Sigurbirni Björnssyni. Stefán lagði til hliðar æsilega sóknartilburði og þróttmiklar fórnir, sem hafa verið hans aðalsmerki í gegnum tíðina, en greip þess í stað til fíngerðra peðsleikja og nákvæmra hrókaflutninga um gjörvallt taflborðið. Stefán herti tökin jafnt og þétt í endataflinu þar til staða Sigurbjörns var orðin erfið viðfangs. Erfitt er að benda á hvar Sigubjörn fór út af sporinu enda má segja að tækni Stefáns í hróksendataflinu hafi daðrað við fullkomnun. Húsfyllirinn Stefán Bergsson er langefstur með tveggja vinninga forskot á keppinauta sína þegar tveimur umferðum er ólokið. Fær eitthvað stöðvað KA-manninn?

Bragi Þorfinnsson fann loks reitina sína aftur eftir nokkuð brokkgenga taflmennsku til þessa. Bragi stýrði hvítu mönnunum gegn Hrafni Loftssyni og einkenndust flestir leikir Braga af áræðni og ásetningi. Snemma tafls sótti á Braga mikil fórnsótt sem áhorfendum þótti óvíst að ætti sér lækningu. Bragi sá lengra en aðrir og mundaði sleggjuna í 19.leik sem skildi eftir djúpa dæld í miðborðinu:

20180201_210710

Bragi Þorfinnsson lék 19.d4!! og áhorfendur tóku andköf.

Hrafn kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að erfiðum varnarleik og honum lánaðist að þvælast fyrir Braga og búa til möguleika á þráskák með því að opna taflið. Bragi sá hins vegar við öllu mótspili Hrafns og hafði sigur í afar skemmtilegri skák.

Þeir Vignir Vatnar Stefánsson og Dagur Ragnarsson hafa marga hildi háð við taflborðin í gegnum tíðina. Þeir mættust í spennandi skák í 7.umferðinni þar sem Dagur hafði betur eftir taktískan darraðardans. Þeir misstu báðir af vænlegum leiðum í skákinni. Degi yfirsást vinningsleið í þessari stöðu:

20180201_211222

Í stað 35…Rg5! og svartur hefur auðunnið tafl þá lék Dagur 35…Rh6 og skyndilega, eftir uppskipti á g6, var það Vignir Vatnar sem átti skemmtilega leið til að snúa taflinu sér í vil:

20180201_223415

Þó Guðsmenn kæri sig sjaldnast um að vera settir út í horn þá hefði þessi tiltekni biskup betur fórnað sér í hornið því eftir 37.Bh8!! hefði opnast hraðbraut fyrir hennar hátign að æðsta presti svarts. Vignir missti af þessum möguleika og Dagur slapp því fyrir horn og gat haldið áfram óáreittur að þrengja að Vigni á kóngsvængnum. Dagur vann skákina að lokum og er nú kominn í röð næstefstu manna með 5 vinninga.

Engin skák sveiflaðist meira en viðureign Einars Valdimarssonar og Lenku Ptacnikovu. Reyk lagði frá skákreiknum þegar þeir hömuðust við að meta stöðuna eftir hvern leik. Einar sem hafði hvítt var ítrekað hársbreidd frá því að máta Lenku en alltaf fann Lenka leik til að halda taflinu gangandi. Skákin þróaðist á þann veg að Einar fékk mun betra, var svo með unnið, þá aftur jafnt, aftur unnið á Einar, jafnt, betra á Lenku, unnið á Einar, kolunnið á Einar, næstum því mát, jafnt, betra á Lenku, unnið á Einar, kolunnið á Einar, jafnt, betra á Einar, betra á Lenku, jafnt, betra á Lenku, unnið á Lenku, kolunnið á Lenku og loks 0-1. Upplifun áhorfenda var svipuð því að fylgjast með borðtenniskúlu Forrest Gump; umtalsverð hætta á svimaköstum.

Veigarnar í Birnu-kaffi eru margrómaðar.

Það var gott að grípa í kökurnar hjá Birnu á milli leikja í skák Einars og Lenku því með tóman maga var ógjörningur að átta sig á hvað var að gerast.

Stefán Bergsson er sem fyrr segir efstur með 7 vinninga og nægir honum eitt jafntefli til þess að tryggja sér sigur í mótinu. Hvorki fleiri né færri en níu skákmenn sitja í 2.sæti með 5 vinninga og þurfa þeir að stóla á að Stefán misstígi sig í síðustu tveimur skákunum. Það kemur í hlut Braga að takast á við þá snúnu áskorun að setjast gegnt Stefáni Bergssyni í 8.umferð.

Að lokinni 7.umferð Skákþings Reykjavíkur liggur ljóst fyrir að mótið hefur alla burði til þess að skipa veigamikinn sess í skáksögubókunum. Ef sögukennarinn að norðan, Stefán Bergsson, heldur uppteknum hætti í lokaumferðunum tveimur verður mótsins ekki einungis getið í sögubókum heldur fær það sérstakan kapítula.

Skákáhugamenn munu vafalítið sitja á sætisbrúnunum á sunnudag er stund sannleikans rennur upp. Þá mætast Stefán og Bragi og fer klukkan í gang klukkan 13:00. Munið að spenna sætisólar.

Allir nánari upplýsingar um úrslit og stöðu, sem og innslegnar skákir, má nálgast á Chess-Results.