Það var mikil stemming á öðru skemmtikvöldi Taflfélags Reykjavíkur sem fram fór á föstudagskvöldið. Níu sterk lið voru mætt til leiks í “Heili og hönd” þar sem tefldar voru Fischer Random stöður. Reglulega var gert hlé á taflmennskunni til að hlaða batteríin og heimsækja nágranna okkar á Billiardbarnum. Taflmennskan var oft á tíðum mjög skrautleg líkt og á Íslandsmeistaramótinu í Fischer Random fyrir mánuði síðan.
Það varð fljótt ljóst að keppnin yrði afar hörð og jöfn en fyrir lokaumferðina gátu enn fjögur lið landað sigrinum. Enda fóru leikar svo á endanum að þrjú lið urðu efst og jöfn með 6 vinninga. Það þurfti síðan þrefaldan stigaútreikning til að krýna Jón Viktor Gunnarsson og Ólaf Kjartansson sem sigurvegara. Í öðru sæti höfnuðu Þorvarður F. Ólafsson og Ingvar Þór Jóhannesson og bronsið tóku svo Bergsteinn Einarsson og Sigurður P. Steindórsson.
Reyndar virðist sem Bergsteinn hafi landað öllum vinningum bronsliðsins, því hann tilkynnti ætíð úrslit síns liðs annaðhvort með “Bergsteinn vann” eða “Siggi Palli tapaði”!
Líkt og á fyrsta skemmtikvöldi Taflfélagsins voru vegleg verðlaun veitt fyrir þrjú efstu sætin í formi medalía og inneignar á Billiardbarnum þar sem kvöldinu var slúttað með glans.
Við hjá Taflfélaginu þökkum kærlega fyrir þátttökuna, og næsta skemmtikvöld verður væntanlega haldið í lok maí. Allar tillögur að keppnisfyrirkomulagi þá eru vel þegnar og verða grandskoðaðar!
Hér má sjá myndir frá skemmtikvöldinu.
Úrslit:
1-3 Jón Viktor og Ólafur K, 6 Þorvarður og Ingvar Þ, 6 Bergsteinn og Sigurður P, 6 4-5 Hilmar og Guðmundur K, 5 Rúnar Berg og Stefán K, 5 6-7 Róbert og Kjartan M, 3 Elsa og Jóhanna, 3 8 Arnar E og Harpa, 2 9 Hjálmar og Hörður, 0