Stefán Bergsson lét engan stoppa sig og vann með fullu húsi á Þriðjudagsmóti TR þann 3. september. Fyrir árangurinn græddi Stefán heil 25 atskákstig. Skari manna hlutu 3 vinninga af 4; Vignir Vatnar Stefánsson, sigurvegari síðasta þriðjudagsmóts, Halldór Brynjar Halldórsson, Gauti Páll Jónsson, Aasef Alashtar og Jón Eggert Hallsson. 18 manns mættu og teflt var í einum flokki. Öll úrslit má nálgast á chess-results
Næsta þriðjudagsmót verður þriðjudaginn 10. september næstkomandi. Tefldar eru fjórar skákir og tímamörkin eru 15 mínútur á skákina að viðbættum 5 sekúndum á hvern leik. Mæti 20 skákmenn til leiks eða fleiri, er mótinu skipt fyrir miðju í tvo flokka en annars er teflt í einum flokki. Mótin eru öllum opin og reiknuð til alþjóðlegra atskákstiga. Teflt er í félagsheimili TR, Faxafeni 12 og taflmennskan hefst stundvíslega klukkan 19:30. Umsjón með mótunum hafa þeir Eiríkur K. Björnsson og Gauti Páll Jónsson. Þátttökugjald er 500kr. en frítt er fyrir 17 ára og yngri.