Bolvíkingurinn knái, Stefán Arnalds (2007), sigraði á æsispennandi Skákmóti öðlinga sem lauk síðastliðið miðvikudagskvöld. Í lokaumferðinni gerði Stefán jafntefli við hinn margreynda norðlending, Þór Valtýsson (1946), í rafmagnaðri skák þar sem sá fyrrnefndi hafði vænlega stöðu í lokin. Tími beggja var þó farinn að telja í sekúndum og varð því skiptur hlutur niðurstaðan enda höfðu önnur úrslit gert það að verkum að jafntefli dugði Stefáni til sigurs í mótinu.
Við upphaf síðustu umferðar var sú athyglisverða staða uppi að sex keppendur hefðu getað endað efstir og jafnir með 5 vinninga hver. Raunin varð hinsvegar önnur en úrslit urðu þó ekki ljós fyrr en síðla kvölds enda breyttist staðan á toppnum nánast í hvert sinn sem úrslit duttu inn.
Sem fyrr segir var baráttan afar jöfn og ljóst að úrslit viðureigna fjögurra efstu borðanna myndu ráða mestu um lokaröð efstu manna. Fyrst til að klárast var orrusta Inga Tandra Traustasonar (1916) og Sigurðar Daða Sigfússonar (2299) þar sem sá síðarnefndi stýrði svörtu mönnunum nokkuð örugglega til sigurs. Þar með var Sigurður Daði orðinn jafn Stefáni með 5 vinninga en röð þeirra breyttist reglulega samtímis því sem önnur úrslit urðu ljós.
Síðla kvölds fór öðrum lykilviðureignum að ljúka, fyrst þegar Þorvarður F. Ólafsson (2195) og Siguringi Sigurjónsson (1971) slíðruðu sverðin og sömdu um skiptan hlut þar sem Þorvarði tókst ekki að kreista fram sigur peði yfir og með biskup mót sterkum riddara Siguringa. Á þessum tímapunkti voru Stefán, Þorvarður, Sigurður Daði og Siguringi allir með 5 vinninga og ómögulegt að segja til um hver yrði efstur að loknum stigaútreikningi.
Frekari útreikningar fyrir efsta sætið reyndust þó óþarfir þar sem Stefán og Þór gerðu að lokum jafntefli eins og segir að ofan. Enginn sem eftir var gat þarna náð Stefáni að vinningum og titillinn því í höfn. Síðastur til að klárast var bardagi varaformanns TR, Kjartans Maack (2110), og barnalæknisins Ólafs Gísla Jónssonar (1904) þar sem niðurstaðan var einnig jafntefli eftir venjubundinn klukkubarning þess fyrrnefnda. Tveimur peðum undir varðist Kjartan fimlega þar sem hvor hafði hrók og riddara og þráskák varð að lokum lendingin. Ólafi tókst því ekki að komast í hóp þeirra sem höfðu 5 vinninga en hann var á meðal efstu manna um tíma eftir góða sigra gegn Sigurði Daða og Þorvarði, stigahæstu keppendum mótsins.
Lokastaðan er því þannig að Stefán sigrar með 5,5 vinning, en næstir með 5 vinninga koma Þorvarður, Siguringi og Sigurður Daði þar sem tveir fyrstnefndu hljóta 2. og 3. sætið eftir stigaútreikning. Ólafur Gísli, Árni H. Kristjánsson (1894) og Þór fylgja fast á eftir með 4,5 vinning.
Skemmtilegu, vel heppnuðu og mjög svo spennandi Öðlingamóti er því lokið þar sem keppendafjöldi var svipaður og í fyrra og styrkleiki keppenda spannaði allan skalann upp að 2300 Elo-stigum. Mest allra hækkaði Kristján Geirsson (1492) eða um 93 stig. Þá tóku þeir félagar úr Skákfélagi Vinjar, Hjálmar Sigurvaldason (1426) og Hörður Jónasson (1536), inn 30 stiga hækkun hvor líkt og Óskar Long Einarsson (1691).
Við í TR þökkum keppendum öllum fyrir þátttökuna og óskum Stefáni Arnalds til hamingju með sigurinn. Við vonumst til að sjá ykkur aftur, og fleiri til, að ári. Við minnum jafnframt á Hraðskákmót öðlinga sem fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld 18. maí og hefst kl. 19.30. Að því móti loknu fer fram verðlaunaafhending fyrir Skákmót öðlinga.
Lokastaðan
Skákirnar: 1 2 3 4 5 6 7 allar