Skákkeppni vinnustaða var haldin 16.febrúar og voru sjö skáksveitir mættar til leiks. Skákakademía Reykjavíkur fór þar fremst í flokki með vel lesna skákkennara innanborðs. Önnur lið sem tóku þátt í mótinu voru Landspítalinn, Verslunarskóli Íslands, Mannvit, Logos lögmenn, Icelandair og Isavia.
Skákakademían var í nokkrum sérflokki og lagði alla andstæðinga sína að velli, flesta þó með minnsta mun. Skákkennararnir nældu sér í 13,5 vinning í skákunum 18 og voru þremur vinningum á undan næstu sveit. Þetta var annar sigur Akademíunnar í röð en alls hefur Akademían unnið fjórum sinnum frá því mótið hóf göngu sína á ný, eftir nokkurt hlé, árið 2012. Lyfjarisinn Actavis vann hins vegar mótið í tvígang árin 2014-2015.
Keppnin um 2.sætið var æsispennandi og munaði aðeins 1,5 vinning á 2.sæti og 5.sæti. Sveit Landspítalans sem hafði á að skipa mjög jafnri sveit varð sjónarmun á undan keppinautum sínum og hlaut 10,5 vinning í 2.sæti. Þetta er þriðja árið í röð sem Landspítalinn hreppir silfurverðlaunin. Hálfum vinningi á eftir Landspítalanum kom sveit Icelandair og nægði það til bronsverðlauna. Verslunarskóli Íslands hlaut 9,5 vinning í 4.sæti og sveit Isavia lauk tafli í 5.sæti með 9 vinninga. Það merkilega við sæti Isavia var að sveitin vann fjórar viðureignir, einni fleiri en keppinautar þeirra í 2.-4.sæti. Allar viðureignirnar unnust hins vegar með minnsta mun og stórt 0-3 tap gegn Landspítalanum í 1.umferð gerði það að verkum að sveitin varð að gera sér 5.sætið að góðu. Mannvit endaði í 6.sæti með 5,5 vinning og Logos lögmenn ráku lestina með 5 vinninga.
Ólafur Ásgrímsson var skákstjóri mótsins og eru honum færðar góðar þakkir fyrir. Þá fær Myllan sérstakar þakkir fyrir að sjá keppendum fyrir veitingum.
Nánari upplýsingar um mótið má nálgast á Chess-Results.