Önnur umferð Haustmótsins fór í fram í gær, föstudagskvöld. Mikið var um sviptingar og vænlegar stöður skiptu um eigendur á fleiri en einu borði.
Vindum okkur í skákirnar.
A-flokkur
Mikael Jóhann byrjaði vel í fyrstu umferð og virtist ætla að fylgja því eftir með góðri skák gegn Jóhanni Ragnarssyni í 2. umferð. Mikael fór að taka yfir eftir taktísk mistök Jóhanns í 17. leik, 17.Re2?
Mikael valdi 17…Rxd4 sem vann peð en 17…Rxf4 var mögulega betri. Taktísku mistökin í 17. leik voru kannski hvað helst að framhaldið 18.Bh7+? gaf svörtum yfirburðatafl. Mikael var tveim peðum yfir og í sókn!
Þá fór eitthvað að gefa sig. Hér t.d. var 29…Rg3+ og De4+ í næsta leik einfaldlega mát í nokkrum leikjum. Yfirburðir svarts héldu samt áfram, mest -8 eftir þetta en Mikael fann einfaldlega ekki leiðina til að klára og endaði á að sætta sig við þráskák.
Önnur skák sem varð fyrir snöggum eigendaskiptum var skák Símons og Kjartans. Kjartan tefldi glimrandi frakkskák og fékk eiginlega allt sem svartur getur beðið um. Í tímahraki var Kjartan allt í einu upp úr engu bara korter í mát og með lítinn tíma á klukkunni varð ekkert við ráðið! Seiglusigur hjá Símoni sem var virkilega í köðlunum lengst af.
Seiglan var líka til staðar hjá Benedikt Þórissyni. Björn Hólm fékk mjög vænlegt endatafl og hefði líklega átt að klára dæmið. Benedikt gaf hinsvegar ekkert eftir og náði að verjast vel og tryggja sér jafntefli í endataflinu.
Bárður tefldi góða skák gegn Adam. Frumkvæði hans á drottningarvæng landaði honum peðsvinningi sem dugði svo til að sigla vinningnum heim.
Loks hafði Sigurbjörn betur í uppgjör “gömlu” mannanna í flokknum! Sigurbjörn hefur oft náð góðum sóknarskákum í sikileyjarvörninni og það var nákvæmlega það sem var á boðstólnum í þessari skák!
Bárður er efstur með 2 vinning en Mikael Jóhann og Benedikt hafa 1,5 vinning.
B-flokkur
Ein skák var í beinni í B-flokki en þar hafði Kristinn Jens betur gegn Markúsi Orra með svörtu. Kristinn fór að plokka peð af kóngsvæng hvíts í endataflinu og peð hans urðu svo hættulegri.
Jósef er sá eini í flokknum með 2 vinninga, langflestir hafa 1 vinning, eina tapskák og eina sigurskák!
Guðni Stefán Pétursson þurfti því miður að draga sig úr leik og því verður flokkurinn 9 manna flokkur.
Opinn flokkur
Óttar Örn og Örvar Hólm unnu skákir á efstu borðum og hafa tvo vinninga eins og Jóhann Helgi Hreinsson og Lárus Sólberg Guðjónsson.