Skemmtikvöld T.R. 28. mars – Íslandsmótið í Fischer Random



Það er skammt stórra högga á milli hjá Taflfélagi Reykjavíkur næstu vikurnar.  Á miðvikudagskvöld hófst hið goðsagnakennda Öðlingamót félagsins, en það er nú haldið í 23. sinn.  Í lok mánaðar hefjast svo tvö stórmót þótt ólík séu á vegum T.R. en það er annars vegar Páskaeggjasyrpan fyrir yngri kynslóðina, sem byrjar 30. mars, og kvöldið eftir hefur göngu sína í fyrsta sinn WOW air mótið -Vormót Taflfélags Reykjavíkur sem stefnir í að verði eitt af aðalmótum skákársins.

 

Til að kóróna skákveisluna verður haldið skemmtikvöld í Skákhöll félagsins föstudagskvöldið 28. mars.  Það verður það fyrsta í röðinni þennan veturinn en stefnt er að því að halda slíkar skemmtanir einu sinni í mánuði fram á vorið.  Skemmtikvöld Taflfélagsins verða haldin í samstarfi við Billiardbarinn og á þessu fyrsta kvöldi verður ekkert minna undir en fyrsti Íslandsmeistaratitillinn í Fischer Random!

 

Tefldar verða 12 umferðir (12 mismunandi Fischer Random stöður valdar af handahófi) með 5 mínútna umhugsunartíma, og tvö hlé gerð á taflmennskunni eftir 4. og 8. umferð til að mönnum gefist kostur á að endurmeta stöðu sína, ná aftur vopnum sínum ef með þarf, eða bara að fagna góðum árangri með einn ískaldann við hönd á Billiardbarnum.  Í lok mótsins fer fram verðlaunaafhending og svo er tilvalið að klára skemmtikvöldið á Billiardbarnum.

 

Upplýsingar og dagskrá:

  • Kvöldið hefst kl. 20.00  Skráning á staðnum.
  • 12 umferðir, 5 mínútna umhugsunartími á skák
  • Fjórar fyrstu upphafsstöðurnar gefnar út degi fyrir mót.
  • Stöður 5-8 gefnar upp eftir umferð fjögur.  Hálftíma hlé gert á taflmennskunni.  Bjórinn á 500 kr. fyrir keppendur allt kvöldið á Billiardbarnum.
  • Stöður 9-12 gefnar upp eftir umferð 8.  Hálftíma hlé.
  • Verðlaunaafhending í mótslok: 
  1.  Bikar + 8000 króna inneign á Billiardbarnum
  2.  Verðlaunapeningur + 5000 króna inneign á Billiardbarnum  
  3.  Verðlaunapeningur + 2000 króna inneign á Billiardbarnum
  • Aðgangseyrir 500 kr. 
  • Bjórinn á Billiardbarnum 500 kr. allt kvöldið fyrir keppendur og gesti skemmtikvöldsins.  30% afsláttur af tímagjaldi í pool eftir mót.

 

  • Tekið skal fram að öll meðferð áfengra drykkja er bönnuð í húsnæði TR
  • Allir skákáhugamenn velkomnir og 20 ára aldurstakmark 

 

Taflfélag Reykjavíkur vonast til að sjá sem flest ykkkar!