Fyrsta umferð Skákþings Reykjavíkur fór fram í dag, sunnudaginn 5. janúar. Nokkur dæmi eru um það að skákmenn hafi skrifað 2019 og breytt síðan ásnum í tvist og níu í núll, eins og þekkist þegar setist er að tafli í jafnan fyrstu kapskák ársins. 59 skákmenn eru skráðir til leiks. Þónokkrir tóku sér yfirsetu í fyrstu umferð, meðal annars nokkrir ungir skákmenn vegna taflmennsku erlendis. Stigahæstu keppendur mótsins eru að þessu sinni titilhafarnir Guðmundur Kjartansson, Davíð Kjartansson, Sigurbjörn Björnsson og Vignir Vatnar Stefánsson. Þeir stigahærri unnu þá stigalægri á efstu borðum fyrir utan jafntefli í skák Jóns Þórs Helgasoar (1672) og Stephans Briem (2197). Önnur óvænt úrslit voru þau að Blikinn Örn Alexandersson (1550) vann Guðna Stefán Pétursson (2026) og Batel Goitom Haile (1559) gerði jafntefli gegn Braga Halldórssyni (2089). Öll úrslit og pörun í aðra umferð má nálgast á chess-results.
Önnur umerð verður næstkomandi miðvikudgaskvöld klukkan 19:30 í Faxafeni 12. Þá fær Guðmundur að kljást við Eirík Björnsson og Davíð fær svart gegn Alexander Oliver Mai, sem gerði garðinn frægan í síðasta haustmóti með góðri framistöðu gegn stigahærri mönnum. Birnukaffi er á sínum stað að vana þar sem boðið er upp á alls kyns kræsingar sem koma blóðinu á stað þegar þess gerist þörf.