Lenka öðlingameistari 2024! Bragi vann hraðskákinaSkákþing Öðlinga, eða einfaldlega Öðlingamótið, fór fram í TR frá 14. febrúar til 3. apríl. Mótið er fyrir alla skákmenn sem eru 40 ára eða eldri. Mótið var heldur fámennara en oft áður, 22 skráðir til leiks, en að sjálfsögðu afar góðmennt – reyndar bókstaflega afar góðmennt enda margir þátttakenda afar. 

Til að byrja með einkenndist mótið af fantaformi Kristjáns Arnar Elíassonar en hann missti örlítið flugið eftir góða byrjun, og svo fór að kvennastórmeistarinn Lenka Ptacnikova “kom af hlið” og vann mótið annað árið í röð. Í fyrra varð hún líka hraðskákmeistari öðlinga. 

Lenka fékk 5.5 vinning úr sjö skákum. Í skiptu 2.-5. sæti urðu Kristján Örn, Páll G. Jónsson, Þórður Örn Arnarson og Haraldur Baldursson með 4.5 vinning. 

Viku síðar fór fram hraðskákmót en þá var einnig haldin verðlaunaafhending fyrir sjálft Öðlingamótið. Bragi Halldsórsson vann hraðskákmótið með 5.5 vinning af sjö, jafnmörgum vinningum og sigur Lenku í aðalmótinu! Loks fengu þrír skákmenn fimm vinninga í hraðskákmótinu: Kristján Örn, Lenka, og Fide-meistarinn Pálmi Ragnar Pétursson. 17 manns mættu til leiks í hraðskákina. 

Ingvar Þór Jóhannesson sá um fréttaflutning samhliða mótinu á skak.is. Skákstjórn var í höndum Gauta Páls Jónssonar, Daða Ómarssonar og Jons Olav Fivelstad. Daði sá um útsendingarborðin af mikilli fagmennsku og voru skákir mótsins sýndar beint út. 

Öðlingamótið á chess-results

Hraðskákmót öðlinga á chess-results

Hlekkur á beinar útsendingar á skákum mótsins á Live cloud. (vegna smávægilegra mótaárekstra náðist ekki að sýna 7. umferð beint). 

Hlekkur á mótið á lichess.

Hlekkur á Öðlingameistara frá upphafi.

Lenka og Kristján Örn.

Lenka og Kristján Örn. Mynd: Geir Rögnvaldsson.

 

Lenka, Bragi sigurvegari hraðskákmótsins, og Kristján Örn. Mynd: Geir Rögnvaldsson.

Lenka, Bragi sigurvegari hraðskákmótsins, og Kristján Örn. Mynd: Geir Rögnvaldsson.