Skákþing Reykjavíkur hafið – Miklir meistarar meðal þátttakenda



IMG_7808

Jón Úlfljótsson hafði ekki erindi sem erfiði gegn stórmeistaranum Stefáni Kristjánssyni sem hér stýrir svörtu mönnunum.

Í dag hófst í 85. sinn Skákþing Reykjavíkur en teflt er í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni.  Björn Jónsson formaður félagsins setti mótið og í kjölfarið hófu keppendur leik á reitunum köflóttu.  Mótið er vel skipað keppendum á öllum aldri og af öllum getustigum.  Hátt í tuttugu keppendur hafa meira en 2000 Elo-stig, þeirra stigahæstur stórmeistarinn Stefán Kristjánsson (2471).  Næstir Stefáni koma alþjóðlegu meistararnir Guðmundur Kjartansson (2456), Jón Viktor Gunnarsson (2455) og Björn Þorfinnsson (2418).  Allir hafa þeir borið krúnu Reykjavíkurmeistara, Jón Viktor þeirra oftast eða sex sinnum, en hann er meistari síðustu tveggja ára og getur með sigri í mótinu jafnað met stórmeistarans Þrastar Þórhallssonar sem hefur unnið titilinn oftast allra, eða sjö sinnum.

IMG_7799

Ungstirnið Vignir Vatnar Stefánsson er mættur til leiks og mun vafalítið láta sverfa til stáls.

Þá er það sérstakt ánægjuefni að sjá gamla brýnið Jón Kristinsson (2240) á meðal þátttakenda en 55 ár eru síðan hann tók þátt á sínu fyrsta Skákþingi og alls hefur hann sex sinnum orðið Reykjavíkurmeistari.  Það var hinn ungi Aron Þór Mai (1714) sem fékk það hlutskipti í fyrstu umferð að eiga við hinn reynda meistara.

IMG_7807

Bárður Örn Birkisson sýndi Freyju litlu systur enga miskun. “Góður við yngri systkini” á ekki við í alvöru skákmótum.

Afar athyglisvert er að rýna í keppendalistann en þar á meðal eru margir af yngstu og efnilegustu skákmönnum þjóðarinnar sem vafalaust eiga eftir að bæta töluverðu við sig á Skákþinginu í baráttunni við sér sterkari og reyndari andstæðinga.

IMG_7805

Skákþingið hafið með tilheyrandi baráttu.

Eins og gengur var stigamunur á milli keppenda mikill í fyrstu umferð og úrslit því almennt þau að hinn stigahærri sigraði þann stigalægri ef frá er skilinn óvæntur sigur Róberts Luu (1502) á Jóni Trausta Harðarsyni (2059).  Þá lauk þremur viðureignum með jafntefli eða á milli Jóhanns Arnars Finnssonar (1598) og Björgvins Víglundssonar (2203), Arnar Leós Jóhannssonar (2157) og Ingvars Egils Vignissonar (1530) sem og Stephans Briem (1360) og Þórs Valtýssonar (1980).  Á efstu borðum sigraði Stefán Jón Úlfljótsson (1794), Guðmundur vann Sigurjón Haraldsson (1791) og Jón Viktor lagði Óskar Haraldsson (1784).

Önnur umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst klukkan 19.30 en þá mætast m.a. Stefán Kristjánsson og Siguringi Sigurjónsson (1985), Haraldur Baldursson (1974) og Guðmundur Kjartansson, sem og Jón Viktor og Loftur Baldvinsson (1979).