Í gær, sunnudag, var Skákþing Reykjavíkur sett með pompi og prakt þegar fyrsti stórmeistari okkar Íslendinga, Friðrik Ólafsson, lék fyrsta leikinn fyrir Óskar Long Einarsson sem hafði hvítt gegn stórmeistaranum Stefáni Kristjánssyni. Þetta Skákþing er það 84. í röðinni og er að þessu sinni haldið til heiðurs Friðriki Ólafssyni sem verður áttræður á meðan á mótinu stendur. Þess má til gamans geta að Friðrik hefur unnið Skákþing Reykjavíkur í þrígang; fyrst árið 1960, þá 1963 og loks árið 1975.
Alls taka 67 skákmenn þátt í mótinu, þar af eru sex titilhafar. Þeirra stigahæstur er stórmeistarinn Stefán Kristjánsson (2492) úr Skákfélaginu Huginn. Fjórir alþjóðlegir meistarar munu án efa veita Stefáni harða keppni á toppnum en það eru TR-ingarnir Jón Viktor Gunnarsson (2433), Björn Þorfinnsson (2373) og Sævar Bjarnason (2114), og síðast en ekki síst Dagur Arngrímsson (2368) frá Taflfélagi Bolungarvíkur. Fide meistarinn Guðmundur Gíslason (2315) frá Taflfélagi Bolungarvíkur er jafnframt til alls líklegur enda er hann bæði óárennilegur og óútreiknanlegur þegar hann er í stuði.
Jón Viktor á titil að verja en alls á hann að baki fimm sigra í þessu móti, sá fyrsti kom árið 1998. Björn hefur landað sigri í þrígang og það sama hefur Sævar gert en hann vann mótið fyrst árið 1982. Stefán hefur sigrað í tvígang á mótinu, síðast árið 2006. Það verður spennandi að sjá hvort einhver þessara vinni mótið í ár eða hvort nýtt nafn verði sett á bikarinn. Þess má til gamans geta að Þröstur Þórhallsson hefur oftast allra sigrað á Skákþingi Reykjavíkur, alls sjö sinnum. Næstur á eftir honum kemur alþjóðlegi meistarinn Ingi R. Jóhannsson heitinn með sex sigra.
Þó svo hinir stigalægri hafi veitt þeim stigahærri harða keppni á mörgum borðum í fyrstu umferð þá voru öll úrslit samkvæmt bókinni góðu. Ætla má að titilhafarnir sex sem tefla í mótinu hljóti harðvítuga mótspyrnu í annari umferð. Stórmeistarinn Stefán hefur þá hvítt gegn ungstirninu Vigni Vatnari Stefánssyni og þó svo ríflega 500 skákstigum muni á þeim þá er Vignir Vatnar svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefin. Þá stýrir alþjóðlegi meistarinn Dagur Arngrímsson svörtu mönnunum gegn hinum stórefnilega Birni Hólm Birkissyni sem ásamt tvíburabróður sínum, Bárði Erni, hefur skotist upp á stjörnuhiminn íslensks skáklífs sem ein af okkar helstu vonarstjörnum.
Á miðvikudagskvöld klukkan 19:30 verða klukkur settar í gang í annari umferð mótsins. Teflt er í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12 og eru áhorfendur hjartanlega velkomnir. Sem fyrr verður heitt á könnunni og ilmur af bakkelsinu hennar Birnu okkar mun án efa leika um vit gesta.
- Úrslit, staða og pörun
- Dagskrá og upplýsingar
- Skákþing Reykjavíkur 2014
- Skákmeistarar Reykjavíkur
- Mótstöflur