Sigurlaug Regína nýr formaður Taflfélags Reykjavíkur



Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir var í gær kjörin formaður Taflfélags Reykjavíkur á aðalfundi félagsins.  Óttar Felix Hauksson var kjörinn varaformaður.

Aðrir meðstjórnendur voru kjörnir: Júlíus L. Friðjónsson, Ólafur S. Ásgrímsson, Magnús Kristinsson, Eiríkur K. Björnsson og Elín Guðjónsdóttir.

Í varastjórn sitja, í réttri röð: Björn Jónsson, Kristján Örn Elíasson, Þórir Benediktsson og Torfi Leósson.

 

Sigurlaug er önnur konan sem gegnir formennsku T.R. og leysir nú af hólmi formann síðustu fjögurra ára, Óttar Felix Hauksson.  Hún fetar þar með í fótspor föður síns, Friðþjófs Max Karlssonar, sem gegndi formennskunni á árunum 1981-1985.

 

Sigurlaug hefur verið viðloðandi íslenskt skáklíf alla sína tíð og hóf sinn feril á laugardagsæfingum T.R. árið 1975.  Hún hefur ávallt verið meðlimur í Taflfélagi Reykjavíkur og hefur sótt skákmót innanlands jafnt sem utan.  Hún varð Íslands- og Norðurlandameistari kvenna árið 1981 og hefur verið í landsliðshópi kvenna um árabil þar sem hún hefur meðal annars tekið þátt í fimm Ólympíumótum frá árinu 1980.

 

Sigurlaug hefur verið ötull baráttumaður barna- og unglingastarfs T.R. undanfarin ár og stefnir á að viðhalda þeim uppgangi sem þar hefur verið ásamt því að efla það mótahald sem félagið stendur fyrir ár hvert.

 

Meðstjórnendur Sigurlaugar óska henni til hamingju með formannskjörið og vonast eftir góðu samstarfi á nýju og spennandi starfsári.