Sigrar í lokaumferð Politiken



Daði Ómarsson (2091) og Atli Antonsson (1720) unnu báðir í tíundu og síðustu umferð Politiken Cup sem fram fór í morgun; Daði vann Norðmanninn,  Andreas Larsen (1968), en sænskur andstæðingur Atla mætti ekki til leiks.  Daði endaði í 82.-126. sæti með 5,5 vinning en hann tapaði tveimur skákum án þess að tefla.  Atli endaði í 213.-246. sæti með 4 vinninga.

Daði stóð sig með ágætum og hækkar eitthvað á stigum en Atli nær ekki inn á stigalistann að þessu sinni en vantar lítið upp á og líklega ekki meira en eitt mót í viðbót eftir langa fjarveru frá skákborðinu.

Alþjóðlegi meistarinn, Bragi Þorfinnsson (2377) tapaði, Bjarni Jens Kristinsson (1985) vann og Ólafur Gísli Jónsson (1899) gerði jafntefli.  Bjarni, sem stóð sig mjög vel, varð efstur íslensku þátttakendanna með 6,5 vinning en Bragi kom honum næstur með 6 vinninga.  Ólafur lauk keppni með 4 vinninga.

Rússneski stórmeistarinn og stigahæsti skákmaður mótsins, Vladimir Malakhov (2707), sem leitt hafði mótið frá upphafi, tapaði nokkuð illa í lokaumferðinni og missti þar með af efsta sætinu.  Mikið gekk á í skákum efstu þátttakenda í lokaumferðinni en þegar upp var staðið hömpuðu stórmeistararnir, Parmerian Negi (2590), Indlandi, og Boris Avruk (2641), Ísrael, sigri með 8,5 vinning.  Negi varð ofar á stigum og telst því sigurvegari mótsins.

Jafnir í 3.-6. sæti með 8 vinninga urðu áðurnefndur Malakhov, sem og stórmeistararnir Peter Heine Nielsen (2680), Evgeny Postny (2647) og Sergei Tiviakov (2674).

Heimasíða mótsins