Sævar Bjarnason kennir á laugardagsæfingum



Það var fámennt en góðmennt á laugardagsæfingunni 20. sept. Þau sem mættu fengu heldur betur eitthvað fyrir sinn snúð, því Sævar Bjarnason, alþjóðlegur meistari, var kominn til að ausa úr sínum skákviskubrunni. Sævar er öllum skákáhugamönnum að góðu kunnur og meðal annars er hann sá skákmaður sem teflt hefur flestar kappskákir á íslenskri grundu. Þannig sýnir nýjasti stigalistinn með íslenskum stigum frá 1. september sl. að Sævar hefur teflt 1451 kappskák sem reiknuð hefur verið til íslenskra skákstiga! Hann hefur því úr ómældri reynslu að miðla og krakkarnir fengu allir skákverkefni við sitt hæfi til að glíma við. Það var ekkert slegið af tímanum og í lokin var 5. mín. mót þar sem krakkarnir fengu tækifæri til að tefla við skákmeistarann. Sævar hafði sigur í öllum skákunum, en næst komu Stefanía Stefánsdóttir, Mariam Ómarsdóttir og Josef Ómarsson. 
 
Eins og áður hefur verið sagt, þá mun Sævar Bjarnason vera með skákþjálfun á laugardagsæfingunum  hjá T.R. í vetur og eru allir krakkar velkomnir að vera með!
 
Umsjónarmenn voru Elín Guðjónsdóttir og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.