SA unnu TRuxva nokkuð örugglega



Gauti Páll Jónsson skrifar

Á sama tíma og viðureign TR og TG fór fram tefldu saman lið Skákfélags Akureyrar og unglingaliðs TR, TRuxva. Stór hluti liðsmanna TR voru nýkomnir frá EM í Prag og voru því heitir, en á sama tíma líklega svolítið þreyttir. Lið SA var frekar undirmannað en það liggur við að lið TR hafi verið yfirmannað.

Á fyrsta borði var Vignir Vatnar Stefánsson. Vignir stóð fyrir sínu og halaði inn 9 1/2 vinningum. Það er ekki hægt að taka það af honum Vigni að hann er mjög sterkur í hraðskák og er fljótur að finna góða leiki. Á öðru borði var undirritaður, Gauti Páll Jónsson, sem stóð sig mjög illa. Hann smalaði saman einhverjum fjórum og hálfum vinningi í frekar illa tefldum skákum en var hreinsaður á efri borðum eftir að hafa teflt þar nokkrar mjög góðar skákir. Reyndar fyrir utan skákina með svart á móti Mikka. Hún var glötuð. Hraðskákin er svo yndislega brútal, maður er aldrei búinn að vinna fyrr en kóngurinn er mát. Það þyrfti að vísu nokkuð öflugar sjálfseyðingartölvur til að finna tapleiðina í nokkrum stöðum þar sem menn geta fallið á tíma og tapað en það er annað mál. Á þriðja borði var Bárður Örn Birkisson og á því fjórða var Björn Hólm Birkisson. Þeir fengu um 50% vinningshlutfall hvor og hefðu líklegast náð fleiri vinningum á aðeins betri degi. Á neðri borðum tefldu Aron Þór Mai, Róbert Luu og Alexander Oliver Mai en þeir náðu í nokkra vinninga. Heilt yfir frekar slakur árangur hjá okkar mönnum, nema þá helst hjá Vigni sem hefði þó ef til vill verið til í aðeins meira. Lokaniðurstaðan var 39.5 – 32.5 SA í vil.

Það er nokkuð ljóst að Stórveldi Norðurlands er enn sterkara en ungu mennirnir í TR. Hver veit hversu stór sigur SA manna hefði verið hefðu þeir haft með menn á borð við Fide meistarana Björn Ívar Karlsson, Rúnar Sigurpálsson og Áskell Örn Kárason? Svo maður nefni ekki EM-farana Jón Kristinn Þorgeirsson og Símon Þórhallsson.

En auðvitað er hraðskák fyrst og fremst upp á gamanið og þetta kvöld voru óneitanlega tefldar margar skemmtilegar skákir. Lið TRuxva heldur áfram sömu stefnu og síðustu ár – að mæta miklu sterkara til leiks að ári. TRuxvi þakkar fyrir sig og óskar SA til hamingju með sigurinn!