Reykjavíkurskákmótið 2010 hafið – Atli lagði Róbert



Reykjavíkurskákmótið, sem styrkt er af MP Banka til næstu þriggja ára, hófst í dag.  Yfir eitthundrað keppendur eru skráðir til leiks og að sjálfsögðu á Taflfélag Reykjavíkur sína fulltrúa þar.  Þeirra á meðal er Atli Antonsson (1716) sem gerði sér lítið fyrir og sigraði Róbert Lagerman (2347) í spennandi skák þar sem Atli stýrði svörtu mönnunum.  Glæsilegur sigur hjá Atla sem nýverið hóf aftur taflmennsku af gífurlegum krafti eftir nokkurra ára hlé.

Keppendur eru 104 talsins, þeirra stigahæstur er úkraínski stórmeistarinn, Vladimir Baklan (2654).  Fast á hæla honum koma rússneski stórmeistarinn, Alexey Dreev (2650), og bosníski stórmeistarinn, Ivan Sokolov (2649).  Stigahæstir Íslendinga eru stórmeistararnir, Hannes Hlífar Stefánsson (2574) og Henrik Danielsen (2495) en þeir eru 9. og 18. stigahæstu keppendurnir.  Hannes Hlífar er jafnframt sigurvegari mótsins síðustu tveggja ára.  Stigahæsti TR-ingurinn er alþjóðlegi meistarinn, Guðmundur Kjartansson (2391), en hann er númer 34 í stigaröðinni.

Teflt er í Ráðhúsi Reykjavíkur og er öll aðstaða hin glæsilegasta.  M.a. er sýnt beint frá skákum efstu borða og boðið upp á skákskýringar.  Áhorfendur eru hvattir til að mæta og berja meistarana og skákirnar augum en aðgangur er ókeypis.

Önnur umferð fer fram á morgun, fimmtudag, og hefst klukkan 15.30.

11 skákmenn úr Taflfélagi Reykjavíkur taka þátt í mótinu:

  • AM Guðmundur Kjartansson (2391)
  • Daði Ómarsson (2131)
  • Frímann Benediktsson (1930)
  • Þorsteinn Leifsson (1821)
  • Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir (1809)
  • Jon Olav Fivelstad (1800)
  • Atli Antonsson (1716)
  • Örn Leó Jóhannsson (1710)
  • Eiríkur Örn Brynjarsson (1653)
  • Páll Andrason (1587)
  • Birkir Karl Sigurðsson (1446)

Á heimasíðu mótsins má finna allar frekari upplýsingar, s.s. úrslit og pörun, skákir í beinni sem og allar skákir mótsins.