Reykjavíkurmótið í fullum gangi – formaðurinn á flugi



Alþjóðlega MP Reykjavíkurskákmótið er nú hálfnað en tefldar hafa verið fimm umferðir af níu. Formaður Taflfélags Reykjavíkur, Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir (1809), fór mikinn í gær þegar tefldar voru tvær umferðir og hefur hún nú unnið þrjár skákir í röð og er með 3 vinninga.  Í fyrri skák gærdagsins, sem hófst árla morguns klukkan níu, sigraði hún eiginmann sinn, Jóhann H. Ragnarsson (2140), og hefndi þar með fyrir illa meðferð við skákborðið undanfarin ár.  Í síðari skák dagsins gerði hún sér svo lítið fyrir og lagði Fide meistarann og Bolvíkinginn, Halldór Grétar Einarsson (2260).  Sannarlega glæsilegur árangur hjá Sigurlaugu sem er með sem stendur með 27 ELO stigahækkun.  Andstæðingur hennar í sjöttu umferð er ekki af verri endanum, Indverski alþjóðlegi meistarinn, Sachdev Tania (2398).

Hinn ungi og efnilegi TR-ingur, Daði Ómarsson (2131), byrjaði mótið af miklum krafti með því að gera jafntefli við tvo alþjóðlega meistara og sigra einn Fide meistara í fyrstu þremur umferðunum og lét síðan alþjóðlega meistarann, Braga Þorfinnsson (2398), svitna verulega í fjórðu umferð en varð að lokum að játa sig sigraðan.  Daði hefur 2 vinninga og er með stigahækkun upp á 17 ELO stig sem stendur.

Stigahæsti TR-ingurinn, alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2391) er að ná sér á strik eftir tiltölulega rólega byrjun þar sem hann tapaði m.a. óvænt fyrir Tómasi Björnssyni (2155).  Guðmundur hefur 3 vinninga.

Þá hefur Örn Leó Jóhannsson (1710) staðið sig mjög vel og hefur 2 vinninga og hækkun upp á heil 36 stig og Eiríkur Örn Brynjarsson (1653) hefur einnig staðið sig vel og er með 1,5 vinning og með stigagróða upp á 19 stig.  Frábær árangur hjá TR-ingunum ungu og vonandi að þeir haldi dampi það sem eftir er móts.

Árangur TR-inganna það sem af er móti (vinningar / stigagróði eða tap:

  • AM Guðmundur Kjartansson (2391) 3v / -9
  • Daði Ómarsson (2131) 2v /+17
  • Frímann Benediktsson (1930) 2,5v / +5
  • Þorsteinn Leifsson (1821) 1,5v / -14
  • Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir (1809) 3v / +27
  • Jon Olav Fivelstad (1800) 2v
  • Atli Antonsson (1716) 1v / +13
  • Örn Leó Jóhannsson (1710) 2v / +36
  • Eiríkur Örn Brynjarsson (1653) 1,5v / +19
  • Páll Andrason (1587) 1v / +4
  • Birkir Karl Sigurðsson (1446) 1v / -8