Reykjavíkurmót grunnskóla 2021 – Landakotsskóli og Rimaskóli sigursæl



processed-7b52f44e-c0eb-47c2-8cf9-01ed741590ce_dXipDsQj
Sigursveit Landakotsskóla í flokki 8-10. bekkjar:

Reykjavíkurmót grunnskóla fór fram 11.12. október sl. Mótið, sem hefur verið haldið frá því á áttunda áratug síðustu aldar, hefur verið samstarfsverkefni Taflfélags Reykjavíkur og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, áður Íþrótta- og tómstundaráðs. Mótið er venjulega haldið að vori til eða þegar skákstarfið er venjulega að ljúka í grunnskólum Reykjavíkur. Keppninni í ár var hinsvegar frestað fram á haust vegna heimsfaraldurs og samkomutakmarkana. Sú tímasetning hentar skólunum ekki eins vel og var þátttakan með minna móti.

Sem fyrr var keppt í þremur aldursflokkum, 1-3 bekk, 4-7 bekk og 8-10 bekk. Alls tóku 28 sveitir þátt og var keppt um meistaratitla í opnum flokki og stúlknaflokki.

Flokkur 8-10 bekkjar:

Í flokki 8-10. bekkjar tóku þátt sjö sveitir frá fimm skólum. Tefldu allar sveitir við allar. Öruggur sigurvegari var skáksveit Landakotsskóla en hún hlaut 22 vinn. af 24 mögulegum. A sveit Rimaskóla varð önnur með 15½ vinn. og B sveit Laugalækjarskóla þriðja með 13½ vinn. Stúlknasveit Landakotsskóla hlaut stúlknaverðlaunin.

Flokkur 4-7 bekkjar:

Í flokki 4-7 bekkjar voru tefldar sjö umferðir eftir svissnesku kerfi. Stúlknasveit Rimaskóla vann tvöfalt en þær unnu opna flokkinn og stúlknaflokkinn. Hlaut sveitin 20½ vinn. af 28 mögulegum. A sveit Breiðagerðisskóla varð önnur með 19½ vinn. og A sveit Melaskóla varð þriðja með 17½ vinn.

Flokkur 1-3 bekkjar:

Aðeins sex sveitir mættu til leiks í flokki 1-3 bekkjar og tefldu þær einfalda umferð allar við allar. A sveit Rimaskóla bar sigur úr býtum og hlaut sveitin 18 vinn. af 20 mögulegum. A sveit Ingunnarskóla varð önnur með 15 vinn. og Stúlknasveit Rimaskóla var þriðja með 14 vinn. og hlaut hún einnig bikar fyrir sigur í stúlknaflokki.

Mótsstjóri var Soffía Pálsdóttir frá Skóla og frístundasviði. Skákstjórar voru Jon Olav Fivelstad, Gauti Páll Jónsson og Daði Ómarsson.

Myndir frá keppninni: