Czech Open 2011Þá er Czech Open 2011 í Pardubice, Tékklandi nýafstaðið og kjellinn kominn heim aftur … í hversdagsleikann. Mótið er með sterkari opnum mótum og líka yfirleitt skemmtileg stemmning í kringum það eins og margir Íslendingar þekkja sem hafa tekið þátt. Í þetta skiptið vorum við 6 frá Íslandi, Ég, Hannes Hlífar, Gummi Gísla og frú, Sigurður Eiríks og Jakob Sævar en einnig hitti ég fleiri erlenda skákvini sem ég hef haldið sambandi við. Fyrir aðalmótið tók undirritaður ásamt Gumma Gísla þátt í mjög skemmtilegu atskákmóti með tímamörkunum 15 mínútur og 10 sekúndur fyrir hvern leik sem væri áhugavert að prófa hér heima. Ég átti nokkuð gott mót og var að tefla mjög vel og endaði með 6/9 en hefði hæglega getað fengið fleiri vinninga. Ég var að vonast til halda áfram á sömu braut í aðalmótinu en það gekk ekki jafn vel. Ég byrjaði á því að lenda í veseni með base-inn og gat því ekki alltaf undirbúið mig mjög vel né stúderað almennilega meðan á mótinu stóð þó að ég fékk stundum að kíkja til Hannesar á morgnana. Svo varð ég aðeins lasinn í einni umferð en það kom ekki að sök. Þó að þessir hlutir hafi hugsanlega haft einhver áhrif þá held ég að það sem vantaði helst var betri byrjana undirbúningur fyrir mótið og svo var ég líklega ekki nógu einbeittur í öllum skákunum. Ég náði þó aðeins að rétta úr kútnum eftir lélega byrjun og var kominn með 4/6 sem er allt í lagi en átti svo hrikalegan endasprett. Tapaði fyrir einhverjum rússneskum GM (grand muppet) í sjöundu umferð í mjög flókinni skák þar sem ég eyddi allt of miklum tíma og tók vitlausa ákvörðun með nokkrar sekúndur eftir á klukkunni í krítískri stöðu. Svo voru tvær síðustu skákirnar frekar slappar og fékk ég hálfan úr þeim og endaði því með 50% vinningshlutfall sem ég get varla verið sáttur við en líklega var eini ljósi punkturinn í mótinu sigur gegn ungum úkraínskum IM (international muppet) í sjöttu umferð þar sem ég tefldi ágætlega og var skákin nokkuð flott þó að andstæðingurinn hafi teflt byrjunina frekar undarlega. Ég ætlaði reyndar að láta þá skák fylgja en Halldór Grétar er víst búinn að skýra hana ágætlega á horninu (takk Halldór!). Reyndar vonsvikinn að ég skuli ekki einu sinni fá „!?“ fyrir 23…h5 J vegna þess að tölvan er með einhvern asnalegan vinningsleik! … en nóg um mig, aðrir Íslendingar voru á svipuðu róli og ég, ekki að gera neitt merkilegt fyrir utan Hannes sem var að tefla mjög vel. Það kom manni helst á óvart hvað þetta virtist auðvelt hjá honum, þegar maður kíkti á borðið hans þá var hann yfirleitt kominn með mun betra með svörtu, eða nánast unnið með hvítu mjög snemma ef hann var þá ekki búinn að vinna (minnir að hann hafi unnið eina skák í 16 leikjum). Það var svekkjandi að sjá Nesa tapa síðustu skákinni en 2-5. sæti og 2689 stiga árangur er að sjálfsögðu mjög gott. Mér dettur ekkert fleira í hug til að segja en hvet skákmenn til að kíkja í Ráðhúsið um helgina og leggja góðu málefni lið! Bless bless!