Páskaeggjasyrpan: Háspenna og dramatík á þriðja mótinu



TRBanner2017_simple

Þriðja og síðasta mótið í Páskaeggjasyrpu Nóa Síríus og Taflfélags Reykjavíkur fór fram í dag og var það fjölmennasta mótið til þessa. Toppbarátta beggja flokka var æsispennandi og réðust úrslit ekki fyrr en í lokaumferðinni. Einnig skapaðist mikil spenna yfir því hver myndi hljóta flesta vinninga samanlagt í mótunum þremur. Sú spenna komst þó ekki í hálfkvisti við spennuna sem myndaðist vegna allra páskaeggjanna sem biðu í gulu kössunum á kantinum eftir að komast í hendur verðandi eigenda sinna. Spurningum um stærð eggjanna, uppruna og innihald rigndi yfir skákstjórana svo minnti um tíma á hraðaspurningar í Gettu Betur.

20170409_133745

Einarsglíman var æsispennandi en að lokum hafði Einar Dagur Brynjarsson betur gegn nafna sínum Einari Tryggva Petersen.

Í yngri flokki hóf Anna Katarina Thoroddsen mótið af miklum krafti og gerði sér lítið fyrir og vann fyrstu sex skákir sínar. Hennar helsti keppinautur, Einar Tryggvi Petersen, lenti í vandræðum í 4.umferð þar sem hann varð að játa sig sigraðan gegn Einari Degi Brynjarssyni. Einar Tryggvi hafði halað inn 5 vinninga þegar hann mætti taplausri Önnu Katarinu í síðustu umferð. Þar hafði Einar Tryggvi betur og náði þar með Önnu Katarinu að vinningum og skaust upp fyrir hana á stigum. Einar Tryggvi tryggði sér því sigur í mótinu og Anna Katarina varð í 2.sæti. Í 3.sæti lenti hinn ungi og efnilegi Leon Bjartur Sólar Arngrímsson en hann nældi sér í 5 vinninga og tapaði einungis fyrir Einari Tryggva og Önnu Katarinu. Jöfn honum að vinningum voru Einar Dagur Brynjarsson, Soffía Berndsen, Bjartur Þórisson og Katrín María Jónsdóttir, en öll voru þau lægri en Leon Bjartur á stigum. Stúlknaverðlaunin komu í hlut Soffíu Berndsen.

20170409_155024

Verðlaunahafar yngri flokks: Leon Bjartur Sólar Arngrímsson, Einar Tryggvi Petersen og Anna Katarina Thoroddsen.

Þríeykið Einar Tryggvi, Anna Katarina og Bjartur Þórisson voru í toppbaráttu allra mótanna þriggja og þau röðuðu sér í þrjú efstu sætin í keppninni um samanlagðan vinningafjölda. Einar Tryggvi varð hlutskarpastur með 19 vinninga, Anna Katarina hlaut 17 vinninga og Bjartur Þórisson varð þriðji með 16,5 vinning. Stúlknaverðlaunin komu í hlut Soffíu Berndsen en hún fékk alls 14 vinninga í mótunum þremur.

Í eldri flokki var ekki með nokkru móti hægt að sjá fyrir efstu sætin fyrr en síðasta klukkan hafði verið stöðvuð. Benedikt Þórisson, sem daginn áður hafði tryggt sér sæti í úrslitum í Barna Blitz hraðskákmótinu, hélt áfram að ná góðum úrslitum og vann meðal annarra Ísak Orra Karlsson og Örn Alexandersson. Benedikt var efstur ásamt Gunnari Erik Guðmundssyni fyrir síðustu umferð þar sem þeir mættust í úrslitaviðureign. Þar hafði Gunnar Erik betur og tryggði hann sér því sigur í mótinu með 6 vinninga í 7 skákum. Gunnar Erik fór taplaus í gegnum mótið og leyfði aðeins tvö jafntefli, gegn Benedikt Briem og Erni Alexanderssyni. Í 2.sæti varð Örn Alexandersson með 5,5 vinning og í 3.sæti, einnig með 5,5 vinning, var Batel Goitom Haile. Benedikt Þórisson hafnaði í 4.sæti með 5 vinninga. Jafnir honum að vinningum, en lægri á stigum, voru þeir Karl Andersson Claesson og Gabríel Sær Bjarnþórsson. Stúlknaverðlaunin komu í hlut Ásthildar Helgadóttur en hún lauk tafli með 3,5 vinning.

20170409_155314

Verðlaunahafar eldri flokks: Batel Goitom Haile, Gunnar Erik Guðmundsson og Örn Alexandersson.

Flesta samanlagða vinninga í eldri flokki í mótunum þremur fékk Batel Goitom Haile, alls 17,5 vinningur. Í 2.sæti varð Gunnar Erik Guðmundsson með 16 vinninga. Þriðji varð Árni Ólafsson með 14 vinninga. Stúlknaverðlaunin komu í hlut Iðunnar Helgadóttur sem halaði inn 10 vinninga í mótunum þremur.

Happdrættisvinningurinn að þessu endaði hjá Guðrúnu Fanneyju Briem en hún sýndi jafnframt lipra takta við skákborðið og fékk 4 vinninga í yngri flokki.

20170409_154738

Lukkan var með Guðrúnu Fanneyju Briem í dag er hún var dregin út í happdrættinu og hlaut hún að launum páskaegg nr.6.

Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum þeim fjölmörgu börnum sem lögðu leið sína í Faxafenið og tóku þátt í að gera Páskaeggjasyrpuna árið 2017 að þeim stórskemmtilega og eftirminnilega viðburði sem raunin varð. Nói Síríus fær jafnframt miklar og góðar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf.

Sjáumst að ári liðnu!

 

Nánari úrslit og stöðu í yngri flokki má nálgast hér.

Nánari úrslit og stöðu í eldri flokki má nálgast hér.