Óttar Örn sigurvegari Bikarsyrpu #4



Verðlaunahafar helgarinnar. Kristján, Óttar, Benedikt og Guðrún

Verðlaunahafar helgarinnar. Kristján, Óttar, Benedikt og Guðrún

Óttar Örn Bergmann Sigfússon gerði sér lítið fyrir og vann alla sjö andstæðinga sína í fjórða móti Bikarsyrpunnar sem fór fram nú um helgina í Skákhöll TR. Kom Óttar Örn því fyrstur í mark með fullt hús en næstur með 6 vinnninga var Kristján Dagur Jónsson og eftir fylgdu fimm keppendur með 4,5 vinning; Benedikt Þórisson, Einar Tryggvi Petersen, Ingvar Wu Skarphéðinsson, Einar Dagur Brynjarsson og Jósef Omarsson. Af þessum vösku köppum var það Benedikt sem hlaut bronsið eftir stigaútreikning. Stúlknaverðlaun komu í hlut Guðrúnar Fanneyjar Briem sem nældi í 4 vinninga, líkt og Iðunn Helgadóttir.

Spennandi barátta í Bikarsyrpunni.

Spennandi barátta í Bikarsyrpunni.

Mót helgarinnar var vel skipað 33 keppendum sem er með því mesta frá upphafi Bikarsyrpunnar árið 2014. Á meðal keppenda voru nokkrir af núverandi og nýútskrifuðum nemendum leikskólans Laufásborgar sem settu skemmtilegan svip á mótahaldið. Þessi ungu börn eru nú þegar orðin nokkuð reynd við skákborðið enda stendur skákstarf á Laufásborg í miklum blóma þar sem Omar Salama leiðir starfið áfram af miklum eldmóð. Taflfélag Reykjavíkur sendir þessum hópi ásamt forráðamönnum sérstakar þakkir fyrir þátttökuna en frammistaða og framkoma barnanna á mótsstað var til mikillar prýði. Nokkrir aðrir keppendur voru að taka þátt í sinni fyrstu Bikarsyrpu en alltaf er ánægjulegt þegar nýir og öflugir skákkrakkar bætast í hóp “gömlu jaxlanna”.

Öll úrslit ásamt lokastöðu má finna á Chess-Results en fimmta og síðasta mót syrpunnar þennan veturinn fer fram helgina 26.-28. apríl.