Óttar Örn Bergmann kom fyrstur í mark þegar fjórða mót Bikarsyrpu TR fór fram um nýliðna helgi. Óttar hlaut 6 vinninga úr skákunum sjö en í 2.-3. sæti með 5,5 vinning urðu Iðunn Helgadóttir og Matthías Björgvin Kjartansson. Iðunn hlaut 2. sætið eftir útreikning oddastiga, og þá varð hún efst stúlkna og fékk því stúlknaverðlaun mótsins. Þrír keppendur komu næstir með 5 vinninga; Guðrún Fanney Briem, Bjartur Þórisson og Einar Dagur Brynjarsson.
Mótið nú var það næstsíðasta í Bikarsyrpuröðinni þennan veturinn og var það einkar vel sótt. Keppendur voru 33 talsins sem er þriðja mesta þátttaka frá upphafi en alls telja mót syrpunnar 29 frá upphafi og því verður það næsta hið þrítugasta í röðinni. Töluverð endurnýjun keppenda í mótum syrpunnar hefur að undanförnu átt sér stað og er það vel. Á sama tíma og reyndustu börnin “útskrifast” úr mótunum koma nýir og áhugasamir iðkendur inn sem er afar jákvætt og sýnir vel mikilvægi mótaraðarinnar og ekki síður hversu stór hópurinn er af ungum og efnilegum skákkrökkum. Þetta sést vel á nýafstöðnu móti þar sem tveir af hverjum þremur var án Elo-stiga. Það reynir því á skákhreyfinguna að sinna þessum stóra hópi eins vel og auðið er og bjóða upp á næga þjálfun og mótahald fyrir unga og áhugasama iðkendur sem vilja ná langt í skáklistinni.
Venju samkvæmt fór mót helgarinnar afskaplega vel fram enda allir keppendur til fyrirmyndir jafnt við skákborðin sem og utan þeirra. Keppni var jöfn og spennandi og var ekkert gefið eftir í baráttunni á borðunum köflóttu hvort sem þeir reynslumestu áttu í hlut eða þeir reynsluminni, jafnvel þeir sem voru að taka þátt í sínu fyrsta kappskákmóti. Einhverjir voru reynslulitlir í að skrifa niður leiki skákanna en líkt og áður tók það þá ekki nema nokkrar mínútur að ná tökum á því. Þetta er einmitt hugmyndafræði Bikarsyrpunnar, að kynnast öllu því sem fylgir þátttöku í skákmótum og fá aðstoð eftir því sem þurfa þykir, ásamt því að fá góða æfingu í taflmennskunni sjálfri.
Við í TR þökkum keppendum og forráðamönnum fyrir þátttökuna í enn einum “helgar-skákbúðum” í Faxafeninu og vonumst til að sjá sem flest ykkar aftur þegar lokamót vetrarins fer fram helgina 6.-8. mars. Hér má sjá öll úrslit helgarinnar og þá fylgir myndaalbúm mótanna hér að neðan.