Oliver Aron með fullt hús á fimmtudagsmóti!



17 skákmenn mættu til leiks fimmtudagskvöldið 13.júní  sem er mjög góð þátttaka en þar sem grunnskólarnir eru komnir í sumarfríi þá mættu  ungir og efnilegir skákmenn til leiks sem annars hafa minna mætt.  Telfdar voru 10 umferðir með tímamörkunum 3+2 þ.e. þrjár mínútur plús tvær sekúndur á hvern leik í uppbótartíma.

Fide meistarinn Oliver Aron Jóhannesson sigraði allar sínar skákir og hlaut 10 vinninga af 10 mögulegum ! Það er dýrmætt fyrir almenna skákmenn sem sækja  fimmtudags- og þriðjudagsmótin í TR að mæta sterkum titilhöfum,CM, FM, IM o.s.fr. og fá að spreyta sig gegn þeim – það er bæði lærdómsríkt og skemmtilegt. IM Dagur Ragnarsson hefur verið mjög duglegur að mæta á þessi mót og það er ánægjulegt og virðingarvert.

Í örðu sæti var Guðni Pétursson með 9 vinninga, vel gert hjá honum en hann vann allar sínar skákir nema á móti Oliver.  Í þriðja sæti var Þorsteinn Gauti Sigurðsson með 7.5 vinninga. Haukur Víðis Leósson hlaut stigaverðlaunin kvöldsins þ.e. bestan árangur gagnvart sterkari skákmönnum og hækkar hann um heil 83 skákstig fyrir þann árangur, vel gert hjá þessum unga og efnilega skákmanni.  Skákstjóri var Guðlaugur Gauti Þorgilsson.