Oleksienko sigraði á Czech Open



Úkraínski stórmeistarinn og T.R.-ingurinn Mykhailo Oleksienko (2568) sigraði ásamt Liviu-Dieter Nisipeanu (2670) á Czech Open sem lauk í gær.  Eftir að hafa byrjað frekar rólega með 1.5 vinning úr fyrstu þremur skákunum, skipti hann um gír og vann sex skákir í röð!  Í seinustu umferð lagði hann stórmeistarann Viktor Laznicka (2684) afskaplega áreynslulaust og tryggði sér þar með skipt fyrsta sætið.

 

Meðal annara fórnalamba hans var Dagur Arngrímsson (2384) í fimmtu umferð.

 

Oleksienko er íslenskum skákmönnum að góðu kunnur, enda hefur hann verið fastamaður í liði Taflfélags Reykjavíkur á Íslandsmóti skákfélaga undanfarin ár.

 

Mykhailo hefur boðað komu sína á Stórmeistaramót Taflfélags Reykjavíkur sem hefst í byrjun október.  Verður fróðlegt að fylgjast með kappanum enda greinilega sjóðheitur um þessar mundir.  Íslensku keppendurnir munu því fá það verðugu verkefni að spreyta sig bæði gegn ofurstórmeistaranum Sergey Fedorchuk (2667), og nýbökuðum sigurvegara Czech Open, Mykhailo Oleksienko!  Fleiri keppendur verða kynntir til leiks fljótlega.