Ólafur Thorsson sigraði á Þriðjudagsmóti



Á þriðja tug skákmanna mættu á Þríðjudagsmót vikunnar, þar á meðal nokkrir sem hafa ekki sést á hliðstæðu móti í Skákhöllinni í Faxafeni um hríð. Teflt var í annað sinn með nýjum tímamörkum; þ.e. 10 mín. með fimm sekúndna viðbótartíma og fimm umferðum (í stað 15:5 og fjórum umferðum). Úrslit urðu eftir sem áður „eftir bókinni“ og Ólafur B. Thorsson, stigahæsti keppandinn, tefldi af öryggi og landaði góðum sigri. Gauti Páll Jónsson laut bara í gras fyrir Ólafi og varð því fyrir ofan Sigurð Frey Jónatansson á stigum. Út frá frammistöðustigum tryggði Engilbert Viðar Eggertsson, í 5. sæti, sér síðan úttektarverðlaunin hjá Skákbúðinni, ásamt Ólafi sigurvegara. Loks voru Helga Haukssyni veitt sérstök verðlaun fyrir að mæta eins og herforingi á Þriðjudagsmót í haust og síðastliðinn vetur.
Öll úrslit og stöðu mótsins má annars nálgast hér á chess-results.
Síðasta Þriðjudagsmótið fyrir jól verður 21. desember en á milli jóla og nýárs, nánar tiltekið mánudaginn 27. desember og þriðjudaginn 28. desember, verður hins vegar Atskákmót Íslands í húsi TR og þannig verður þarnæsta Þriðjudagsmót ekki fyrr en á nýju ári, þ. 4. janúar 2022.