Enginn stóð í vegi fyrir Ólafi Thorssyni síðastliðinn þriðjudag; hann tryggði sér fyrsta sætið með fullu húsi og virtist aldrei vera í nokkurri hættu í sínum skákum. Enda var hann búinn undir að mæta enn sterkari andstæðingi en Timur Gareyev (2592) mætti á svæðið. Hann hafði þó varið nokkrum klukkutímum við tölvuna um daginn við útskýringar á skákum Áskorendamótsins og var of lúinn eftir það til að etja kappi við knáa þátttakendur. Í staðinn skoðaði hann aðstöðuna hjá TR, spjallaði við skákstjóra um skákmót á Íslandi og fylgdist með efstu borðum framan af móti.
Ólafur tefldi við alla sem voru nærri toppnum en öruggur í öðru sæti varð síðan frammistöðustigahástökkvari mótsins Brynjar Bjarkason sem tefldi æsilegar skákir og tapaði bara fyrir Ólafi.
Öll úrslit og stöðu Þriðjudagsmótsins má annars nálgast hér á chess-results.
Næsta Þriðjudagsmót verður samkvæmt sumarskipulaginu 5. júlí n.k. og hefst, að vanda, stundvíslega klukkan 19:30 í Skákhöll TR í Faxafeni. Fimm umferðir; 10 mínútur og 5 sekúndna viðbótartími.