Ólafur Gísli Jónsson (1904) og Þorvarður Fannar Ólafsson (2195) eru efstir og jafnir með 4 vinninga hvor þegar fimm umferðum er lokið á Skákmóti öðlinga. Ólafur sigraði Þorvarð í fimmtu umferð og virðist í miklu stuði því í fjórðu umferð lagði hann stigahæsta keppanda mótsins, Sigurð Daða Sigfússon (2299). Sigurður Daði, Siguringi Sigurjónsson (1971) og Árni H. Kristjánsson (1894) koma næstir með 3,5 vinning. Þess ber að geta að enn á eftir að tefla eina viðureign fimmtu umferðar þar sem Stefán Arnalds (2007) hefur hvítt gegn Magnúsi Kristinssyni (1822). Báðir hafa þeir 3 vinninga og geta því með sigri náð efstu mönnum að vinningum.
Sjötta og næstsíðasta umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst venju samkvæmt kl. 19.30. Pörun liggur fyrir um leið og úrslit fyrrnefndar skákar verða ljós.