Norðurlandamót ungmenna 2018 hafið



Í morgun hófst Norðurlandamót ungmenna í skák en það fer að þessu sinn fram í Vierumäki, Finnlandi. Ísland á tíu fulltrúa í mótinu en þar af koma fimm úr Taflfélagi Reykjavíkur, þau Hilmir Freyr Heimisson, Aron Þór Mai, Alexander Oliver Mai, Róbert Luu og Batel Goitom Haile. Tefldar eru sex umferðir í fimm aldursflokkum og eru tímamörk 90 mínútur fyrir alla skákina auk 30 sekúndna viðbótartíma eftir hvern leik. Mótið fer fram dagana 9.-11. febrúar og eru tefldar tvær umferðir hvern dag.

Í fyrstu umferð sigruðu Hilmir, Aron og Alexander sína andstæðinga en Róbert og Batel töpuðu gegn stigahærri andstæðingum. Önnur umferð hefst í dag kl. 13 að íslenskum tíma en fylgjast má með nokkrum skákum í hverri umferð hér. Á morgun laugardag hefjast umferðirnar kl. 7 og 13 en á sunnudag kl. 7 og 12. Úrslit, stöðu og pörun má finna á Chess-Results.