Mikil skemmtun á lokamóti Páskaeggjasyrpunnar!



Lokamótið í Páskaeggjasyrpu Nóa Síríus og Taflfélags Reykjavíkur fór fram síðastliðinn sunnudag. Fyrstu tvö mótin í syrpunni heppnuðust afar vel og voru mikil skemmtun, og lokamótið varð engin undantekning.

Í eldri flokki mættu 33 keppendur til leiks, allt frá krökkum sem tiltölulega nýlega hafa byrjað að yðka skák af kappi upp í okkar sterkustu og efnilegustu unglinga. Stigahæstir og sigurstranglegastir fyrirfram voru tvíburabræðurnir Björn Hólm og Bárður Örn Birkissynir en þeir höfðu barist um sigurinn í öðru móti syrpunnar. Þar hafði betur Bárður Örn og svo fór að lokum að hann sigraði einnig í lokamótinu.

Þeir bræður komu hnífjafnir í mark með 5 1/2 vinning úr sex skákum eftir að hafa gert innbyrðis jafntefli en sigrað alla aðra andstæðinga sína. Tvöfaldan stigaútreikning þurfti til að úrskurða Bárð sigurinn!

Í þriðja sæti endaði svo Birkir Ísak Jóhannsson með fimm vinninga en hann hefur teflt mikið í vetur og er í mikilli framför. Allir koma þessir strákar úr afrekshóp Taflfélags Reykjavíkur og hafa látið mikið að sér kveða á mótum vetrarins.

Þorsteinn Magnússon, einnig úr TR endaði einn í fjórða sæti með fjóra og hálfan vinning en sex keppendur komu síðan næstir með fjóra vinninga. Meðal þeirra var Katla Torfadóttir sem vakti sérstaka athygli fyrir góða taflmennsku en hún mætti ásamt nokkrum félögum sínum frá Hellu í öll mót syrpunnar. Hún varð efst stúlkna á mótinu. Afskaplega skemmtileg heimsókn krakkanna frá Hellu og frábært að sjá hve öflugt skákstarf fer þar fram.

Það var ekki bara keppt um sigur í mótinu á sunnudag, heldur einnig um besta samanlagða árangurinn úr mótunum þremur í syrpunni. Þar hafði sigur hinn ungi og bráðefnilegi Alexander Már Bjarnþórsson en hann er einungis 10 ára.

Hann sigraði í fyrsta móti syrpunnar og náði góðum árangri í hinum mótunum tveimur sem skilaði honum í fyrsta sætið með 13 vinninga samtals úr 18 skákum.

Í öðru sæti samanlagt varð áðurnefnd Katla Torfadóttir, og í þriðja sæti Bárður Örn Birkisson sem sigraði á tveimur mótum syrpunnar.

Í yngri flokk þar sem kepptu börn fædd 2006 og síðar var baráttan jöfn og tvísýn. Það dró til tíðinda í fjórðu umferð en þá mættust Stefán Orri Davíðson Huginn og Gabríel Sær Bjarnþórsson TR sem báðir höfðu unnið þrjár fyrstu skákirnar sínar. Í þeirri viðureign stóð Gabríel til sigurs þegar að hann féll á tíma.

Stefán Orri gerði svo engin mistök í síðustu tveimur skákunum og sigraði með fullu húsi sex vinningum af sex mögulegum. Hann endurtók því leikinn frá því í öðrum móti syrpunnar en þar sigraði hann einnig með fullu húsi.

Gabríel Sær endaði í öðru sæti með fimm vinninga og í þriðja sæti varð svo Alexander Björnsson einnig úr TR með fjóra og hálfan vinning.

Freyja Birkisdóttir TR stóð sig best af stelpunum og endaði í fjórða sæti með fjóra vinninga.

Sérstaka athygli í þessum flokki vakti Bjartur Þórisson úr TR en hann er einungis fimm ára. Hann stóð sig vel á fyrstu tveimur mótunum og í því þriðja gerði hann sér lítið fyrir og krækti í fjóra vinninga. Sannarlega efnilegur piltur þar á ferð!

Keppnin um besta samanlagða árangurinn í yngri flokki var ekki síðri en í þeim eldri.

Þar sigraði Vignir Sigur (nafn með rentu) Skúlason úr TR. Hann vann fyrsta mótið og náði svo ágætis árangri í öðru og lokamótinu sem tryggði honum fyrsta sætið með 13 vinninga. Í öðru sæti samanlagt varð skákprinsessan Freyja Birksidóttir og í því þriðja Stefán Orri Davíðsson.

Það var mikil eftirvænting í lokin þegar dregin voru út í happdrætti þrjú stór og gómsæt páskaegg frá Nóa Síríus ásamt glæsilegri skákklukku. Þar hafði Iðunn Helgadóttir heppnina með sér og vann stærsta eggið. Skákklukkan kom svo í hlut Björns Magnússonar og kannski við hæfi enda þekktur fyrir klukkubarning!

Að lokum fengu allir sem tóku þátt í syrpunni lítið páskaegg að gjöf frá Nóa. Það var bros á hverju andliti þegar syrpunni var formlega slitið!

Páskaeggjasyrpan var líkt og í fyrra einn best heppnaði og skemmtilegasti viðburður starfsársins hjá TR. Taflfélag Reykjavíkur vill þakka þeim fjölmörgu krökkum sem tóku þátt, foreldrum sem fylgdust spennt með framgangi ungviðsins og síðast en ekki síst Nóa Síríus fyrir að styrkja svo myndarlega sem raun bar vitni Páskaeggjasyrpuna 2015. Sjáumst að ári!

Lokastöðuna í eldri flokk má finna hér

Lokastöðuna í yngri flokk má finna hér

Fjölmargar myndir frá mótunum þremur í syrpunni má finna hér