Það vantaði ekki dramatíkina þegar önnur umferð Wow air mótsins fór fram í gærkvöldi í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur. Á efsta borði tefldi Fide meistarinn, Ingvar Þór Jóhannesson, feykilega vel gegn stórmeistaranum og margföldum Íslandsmeistara, Hannesi Hlífari Stefánssyni, sem mátti þakka fyrir að ná jafntefli en Ingvar var með unna stöðu lengi vel peði yfir í hróksendatafli.
Þá sigraði Dagur Ragnarsson alþjóðlega meistarann Guðmund Kjartansson eftir slæman fingurbrjót þess síðarnefnda og er Dagur nú annar tveggja keppenda sem unnið hafa báðar skákir sínar. Stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova, gerði jafntefli með svörtu við stórmeistarann Þröst Þórhallsson og sömuleiðis gerði Sigurður P. Steindórsson jafntefli með svörtu við alþjóðlega meistarann Dag Arngrímsson.
Sem fyrr segir hefur Dagur fullt hús vinninga og deilir efsta sætinu með stórmeistaranum Hjörvari Steini Grétarssyni sem sigraði Oliver Aron Jóhannesson. Næstir með 1,5 vinning eru stórmeistarinn Stefán Kristjánsson ásamt þeim Hannesi og Ingvari.
Í B flokki voru úrslit flest eftir bókinni góðu en þó heldur Vignir Vatnar Stefánsson áfram að ná góðum úrslitum og gerði nú jafntefli við Hrafn Loftsson en flug Vignis Vatnars er reyndar orðið alvanalegt. Vignir er ekki sá eini sem hefur verið „on fire“ að undanförnu því félagi hann, Gauti Páll Jónsson, er í mikilli framför og gerði hann sér lítið fyrir og lagði sjálfan formann Taflfélags Reykjavíkur, Björn Jónsson, sem er 400 Elo stigum hærri en Gauti Páll. Fyrir skákina hafði formaðurinn það á orði að honum liði hreint ekki vel með að þurfa að mæta þessum efnilega dreng sem Gauti er.
Magnús Pálmi Örnólfsson og Torfi Leósson eru efstir í B flokki með fullt hús en Kjartan Maack, Sverrir Örn Björnsson og Arnaldur Loftsson koma næstir með 1,5 vinning.
Þriðja umferð fer fram næstkomandi mánudagskvöld og þá mætir fyrsti stórmeistari Íslendinga, Friðrik Ólafsson, til leiks en hann sat yfir í fyrstu tveimur umferðunum. Friðrik mun stýra svörtu mönnunum gegn Sigurði Páli en á efsta borði mætast efstu mennirnir, Dagur og Hjörvar, og þá mætast stórmeistararnir Hannes Hlífar og Stefán í spennandi viðureign.
Í B flokki mætast m.a. Magnús og Sverrir Örn, Kjartan Maack og Arnaldur Loftsson sem og Mikael Jóhann Karlsson og Vignir Vatnar í mjög athyglisverðri viðureign.
- Úrslit, staða og pörun: A flokkur B flokkur
- Skákir: 1 2 3 4 5 6 7
- Myndir
- Wow air mótið