Metþátttaka á Reykjavíkurmóti. Iðunn og Jósef Reykjavíkurmeistarar. Sigurður Páll sigurvegariÞað voru 88 börn og unglingar er mættu til leiks á Stúlkna- og drengjameistaramót Reykjavíkur, sem haldið var í skákhöllinni í Faxafeni í dag, og margbættu þar með fyrra þátttökumet mótsins. Þetta voru og að engu leyti hinir brjáluðu 88, sem um er fjallað í bandarískri kvikmynd er fyllir tugi tvenna í ár og fjallar um niðurlag Vilhjálms nokkurs, en það er nú önnur saga.

dsmot_tr_2023_10

Nei, þvert á móti voru keppendur til fyrirmyndar og beindu allri orku sinni að reitunum 64 svo úr varð keppni hin skemmtilegasta og spennandi til muna.

Keppt var í þremur flokkum í fyrsta sinn. Í opnum flokki var keppt um Reykjavíkurmeistaratitla, en einnig var keppt um verðlaun í Yngri flokki 1 – fyrir 9-10 ára krakka (f.2013-2014) –  og Yngri flokki 2 – fyrir 8 ára og yngri (f.2015 og síðar). Sökum þátttökufjölda og flokkaskiptingar var kölluð út bakvarðasveitin í dag og sjá mátti fyrrum formann TR og varaformann, æskulýðsforkólfa og mótsstjóra að meiru leggja hönd á plóg, auk varaforseta S.Í.

Víkur þá sögunni að úrslitum mótsins.

Algjör sprengja varð í þátttöku yngsta aldurshópsins – Yngri flokki 2 – og eftir að 32 skákmenn (en ekki taflmenn þó fjöldinn sé sá sami) höfðu hart barist, voru það Dawid Berg Charzynski og Dagur Sverrisson sem urðu jafnir og efstir. Hafði Dawid sigur eftir stigaútreikning. Í 3. sæti og stigahæstur þónokkurra sem jafnir urðu að vinningum varð Alexander Leó Óskarsson.

Aldursflokkasigurvegarar stúlkna og drengja í Yngri flokki 2 urðu:

2015:

Dawid Berg Charzynski

Marey Kjartansdóttir

Helgi Tómas Jónsson

Sigurður Frosti Guðlaugsson

2016:

Dagur Sverrisson

Miroslava Skibina

Alexander Leó Óskarsson

Óðinn Gunnar Halldórsson

2017:

Ernir Loki Tingström

Sigurður H. Jónsson

Högni Þórisson

Lokaúrslit í yngri flokki 2

Í Yngri flokki 1 voru það Tristan Fannar Jónsson og Halldóra Jónsdóttir sem mættust í hreinni úrslitaskák í lokaumferðinni. Hafði Tristan sigur og vann þar með mótið. Halldóra lenti í 3. sæti, en Haukur Víðis Leósson varð annar.

Aldursflokkasigurvegarar stúlkna og drengja í Yngri flokki 1 urðu:

2013:

Tristan Fannar Jónsson

Halldóra Jónsdóttir

Ásgeir Smári Darrason

2014:

Haukur Víðis Leósson

Helen Hekla Priet-Mahéo Eysteinsdóttir

Óðinn Eldjárn Dagbjartsson

Valeria Ovodiuk

Lokaúrslit í Yngri flokki 1

Er þá rétt að geta úrslitanna í opnum flokki, en þar fór fram keppni um titla og bikara. Skemmst er frá því að segja að draumur hvers mótsstjóra rættist, þar sem allt var undir í þeirri skák mótsins sem síðust var að klárast, hvar Sigurbjörn Hermannsson stýrði hvítu mönnunum á móti Sigurði Páli Guðnýjarsyni. Það var ef til vill við hæfi að þessi skák sem hafði svo dramatísk áhrif á lokaniðurstöðu mótsins – og var æsispennandi með ýmsum sigurmöguleikum beggja teflenda – skyldi ráðast á harmleiknum um leiktapið, eða “The Tragedy of the Tempo” eins og pólsk-franski stórmeistarinn og skákhugsuðurinn Savielly Tartakower orðaði það. Svo allrar nákvæmni sé gætt voru leiktöpin reyndar tvö í dag og skildu á milli unnins endatafls með drottningu á móti peði og endatafls þar sem kóngarnir einir voru eftir. Viðeigandi lokastaða það, sem endurspeglar hversu hart var barist í dag.

Sigurður Páll Guðnýjarson bar þar með sigur úr býtum í mótinu, en Drengjameistari Reykjavíkur 2023 varð Jósef Omarsson og Stúlknameistari Reykjavíkur 2023 varð Iðunn HelgadóttirVoru þau þrjú, ásamt Sigurbirni, í einum hnapp á toppi mótsins allan tímann.

dsmot_tr_2023_34dsmot_tr_2023_21

Aldursflokkasigurvegarar stúlkna og drengja í opnum flokki urðu:

2007:

Sigurbjörn Hermannsson

Iðunn Helgadóttir

2008:

Katrín María Jónsdóttir

Máni Steinsen

2009:

Einar Dagur Brynjarsson

Einar Helgi Dóruson

2010:

Theódór Eiríksson

Nikola Klimoszewska

2011:

Sigurður Páll Guðnýjarson

Elísabet Erna Skúladóttir

2012:

Walter Robert Clarkson

Jón Louie Thoroddsen

2013:

Birkir Hallmundarson

Lokaúrslit í opnum flokki

dsmot_tr_2023_15

Taflfélag Reykjavíkur þakkar keppendum og aðstandendum fyrir skemmtilega keppni og góða stund.

Fleiri myndir frá mótinu má nálgast á dropbox.