Það má með sanni segja að á ýmsu hafi gengið í Faxafeninu í gær þegar 3.umferð Skákþings Reykjavíkur var tefld. Efstu borð léku á reiðiskjálfi og efnileg skákæskan stríddi sér reyndari og stigahærri skákmönnum svo eftir var tekið.
Óvænt úrslit litu dagsins ljós á fimm af sex efstu borðunum. Þorvarður Fannar Ólafsson (2245) hefur gert mörgum meistaranum skráveifu í gegnum tíðina og í gær bætti hann höfuðleðri stórmeistara í safnið. Þorvarður hafði betur gegn Stefáni Kristjánssyni (2492) í hörkuskák á efsta borði.
Á 2.borði hafði Oliver Aron Jóhannesson (2170) hægt um sig með svörtu gegn alþjóðlega meistaranum Jóni Viktori Gunnarssyni (2433) og varðist aðgerðum meistarans fimlega. Er Jón Viktor teygði sig eilítið of langt í leit að vinningi þá læsti Oliver klónum í meistarann og lagði hann að velli. Sannarlega vel teflt og sterkur sigur hjá Oliver.
Á þriðja borði mættust alþjóðlegu meistararnir Sævar Bjarnason (2114) og Björn Þorfinnsson (2373) og þar hafði Sævar betur. Sævar er að tefla vel um þessar mundir og er til alls líklegur í mótinu.
Nafnarnir Dagur Arngrímsson (2368) og Dagur Ragnarsson (2059) mættust á 4.borði og fóru sér að engu óðslega. Þeir piltar eru báðir skarpir á milli eyrna og vita sem er að Róm var ekki byggð á einum Degi. Þeir sættust því á skiptan hlut eftir nokkra baráttu og bíða nú færis í námunda við toppinn.
Á 5.borði var helst óvænt að úrslit skákarinnar voru ekki óvænt. Þar stýrði Ísfirðingurinn knái, Guðmundur Gíslason (2315), svörtu mönnunum og fórst það vel úr hendi. Hann vann rauðhærða Rimaskólaundrið Jón Trausta Harðarson (2067), en þó stigamunur sé þónokkur þá er Jón Trausti á mikilli siglingu um þessar mundir og var pilturinn sæmdur nafnbótinni Skákmaður ársins hjá Fjölni árið 2014.
Á 6.borði héldu ófyrirséð endalok áfram því Örn Leó Jóhannsson (2048) gerði sér lítið fyrir og vann byrjanaprófessorinn og skákþjálfarann Daða Ómarsson (2256).
En þar með er ekki öll sagan sögð. Ungir og efnilegir skákmeistarar sýndu á mörgum borðum hvers þeir eru megnugir þó ekki hafi allir náð þeim úrslitum sem til var sáð. Þannig varð Róbert Luu (1358) að lúta í gras fyrir barnalækninum geðþekka Ólafi Gísla Jónssyni (1871) eftir að hafa teflt vel lengst af skákar. Róbert tefldi byrjunina skynsamlega og stillti upp traustri stöðu í miðtaflinu, en uggði ekki að sér er barnalæknirinn skipulagði lymskulega árás á kóngsvæng. Eins og skákþjóð veit þá er barnalæknirinn lunkinn sóknarskákmaður. Róbert getur huggað sig við það að framganga hans í þessari skák sýnir svo ekki verður um villst að hann er að tefla af meiri styrk en skákstig hans gefa til kynna.
Þorsteinn Magnússon (1353) stóð lengi vel til vinnings gegn Kjartani Mássyni (1800) en varð að gera sér jafntefli að góðu. Sannarlega vösk framganga Þorsteins sem hefur lagt hart að sér síðustu misseri við að nema skákfræðin.
Aron Þór Mai (1262) hefur sýnt hraðar framfarir að undanförnu og úrslit hans í Skákþinginu hingað til eru allrar athygli verð. Aron Þór mætti Jóni Úlfljótssyni (1769) í 3.umferð en minnugir skákfréttalesendur muna vafalítið að Aron Þór lagði Óskar Long Einarsson (1619) í 2.umferð. Aron Þór tefldi mjög traust gegn Jóni og gaf fá færi á sér. Leikbragð hans heppnaðist einkar vel og sættist Jón að lokum á skiptan hlut, þó svo á þeim muni 500 skákstigum.
Alexander Björnsson hefur verið iðinn við kappskákborðið síðasta árið og er nú ekki eingöngu að stríða „stigamönnum“ heldur er hann farinn að taka af þeim punkta líka. Í gær stýrði Alexander svörtu mönnunum gegn Sindra Snæ Kristóferssyni (1254) og endaði viðureignin með jafntefli eftir nokkrar sviptingar.
Fjölmargir lögðu leið sína í Faxafenið í gær til að fylgjast með herlegheitunum. Það var sérlega spennandi að fylgjast með viðureignum dagsins, en ekki síður áhugavert að fylgjast með skákmeisturunum stúdera skákirnar að þeim loknum. Þá skemmir ekki fyrir að áhorfendur geta tekið „eina létta“ á hliðarlínunni ef svo ber undir, og voru nokkrir sem nýttu sér það. Þá höfðu margir áhorfendur af því gaman –og ekki síður gagn- að fylgjast með reyndum skákþjálfurum stúdera skákir nemenda sinna og leiðbeina þeim strax að skák lokinni, en nokkrir efnilegir skákpiltar og stúlkur nutu leiðsagnar Helga Ólafssonar og Torfa Leóssonar við að draga mikilvægan lærdóm af skákum sínum. Einnig er vert að geta þess að nýjung umferðarinnar var ekki framkvæmd í skáksalnum, heldur á kaffistofunni. Birna setti saman einhverjar þær ljúffengustu pönnukökur sem gerðar hafa verið norðan Alpafjalla. Gárungarnir velta því nú fyrir sér hvort þessi nýjung hafi spilað rullu í öllum þeim óvæntu endalokum sem skákir gærdagsins buðu upp á.
4.umferð Skákþings Reykjavíkur verður tefld næstkomandi miðvikudagskvöld og munu röggsamir skákstjórar mótsins, Ingibjörg Edda Birgisdóttir og Björn Jónsson, setja klukkur í gang klukkan 19:30. Á meðal athygliverðra viðureigna má nefna titilhafaslag fyrsta borðs hvar Guðmundur Gíslason (2315) hefur hvítt gegn Sævari Bjarnasyni (2114). Sú viðureign er nokkuð merkileg sé sögulegu ljósi á hana varpað, því þessir sömu menn mættust einmitt á efsta borði í Skákþingi Reykjavíkur árið 1993, en það ár vann Guðmundur Gíslason það stórfenglega afrek að vinna mótið með fullu húsi og lék um leið eftir afrek Friðriks Ólafssonar og Björns Þorsteinssonar. Þó má segja að Guðmundur hafi skákað þeim heiðursmönnum því hann vann allar 11 skákir sínar, en Friðrik vann 7 skákir og Björn 9. Á 2.borði mætast Oliver Aron Jóhannesson (2170) og Þorvarður Fannar Ólafsson (2245), hinn efnilegi og röggsami Gauti Páll Jónsson (1871) fær það erfiða hlutskipti að mæta hinum særða meistara Jóni Viktori Gunnarssyni, og Björn Þorfinnsson teflir við barnalækninn sókndjarfa Ólaf Gísla Jónsson en sú viðureign hefur alla burði til þess að verða fjörug. Áhorfendur eru hjartanlega velkomnir, nú sem endra nær.
- Úrslit, staða og pörun
- Dagskrá og upplýsingar
- Myndir
- Skákþing Reykjavíkur 2014
- Skákmeistarar Reykjavíkur
- Mótstöflur