Magnús Hjaltason sigurvegari fyrsta móts Bikarsyrpunnar



Sigurvegarinn einbeittur

Sigurvegarinn einbeittur

Magnús Hjaltason úr Fjölni hafði sigur í fyrsta móti Bikarsyrpunnar sem fram fór um nýliðna helgi. Magnús, sem hefur frá upphafi Bikarsyrpunnar verið þar tíður gestur, hlaut 5,5 vinning úr skákunum sjö og fór taplaus í gegnum mótið. Næstir í mark með 5 vinninga komu TR-ingurinn Adam Omarsson og Gunnar Erik Guðmundsson úr skákdeild Breiðbliks, en Adam var hærri á mótsstigum og hlaut því annað sætið. Stúlknaverðlaun féllu í skaut Soffíu Berndsen sem landaði 4 vinningum en ásamt henni voru þær Anna Katarina Thoroddsen og Iðunn Helgadóttir fulltrúar kvenþjóðarinnar að þessu sinni.

Adam og Gunnar eigast hér við í lokaumferðinni.

Adam og Gunnar eigast hér við í lokaumferðinni.

Mótahald fór fram eins og best verður á kosið enda þátttakendur orðnir margreyndir við hin köflóttu skákborð. Eins og venja er var flautað til leiks seinnipart föstudags og lauk síðustu umferð rétt eftir kl. 17 á sunnudag. Úr varð afar spennandi og skemmtilegt mót þar sem allnokkrir keppendur börðust á toppnum og þá voru mjög margar jafnar og tvísýnar viðureignir háðar á milli keppenda hvort sem þeir voru í toppbaráttu eður ei. Bæting allra viðstaddra í skáklistinni var áberandi og ljóst er að efniviðurinn er mikill.

Þegar að lokadeginum kom var Gunnar Erik efstur en Benedikt Þórisson, Magnús og Ingvar Wu Skarphéðinsson fylgdu fast á eftir. Í fimmtu umferð gerðu Gunnar og Magnús jafntefli sín í milli en á sama tíma lagði Benedikt Ingvar og þar með voru Gunnar og Benedikt efstir og jafnir fyrir sjöttu og næstsíðustu umferð. Sú umferð bauð einmitt upp á spennandi innbyrðis viðureign þeirra í milli þar sem samið var jafntefli eftir rafmagnaða baráttu og prýðilega teflda skák. Úrslit á næstu borðum voru þau að Adam sigraði Árna Ólafsson og slíkt hið sama gerði Magnús gegn Soffíu. Staðan fyrir lokaumferðina var því þannig að hvorki fleiri né færri en fjórir keppendur voru efstir og jafnir með 4,5 vinning; Adam, Benedikt, Gunnar og Magnús. Jafnara getur það varla orðið.

Áhorfendur létu sig ekki vanta.

Áhorfendur létu sig ekki vanta.

Í sjöundu og síðustu umferð mættust síðan á tveim efstu borðunum Adam og Gunnar, sem og Magnús og Benedikt. Lítið var gefið eftir í viðureignunum og snemma skákar var Adam kominn manni yfir gegn Gunnari en sá síðarnefndi varðist vel og náði að vinna manninn til baka og að lokum var samið um skiptan hlut. Magnús stýrði hvítu mönnunum gegn Benedikt og upp kom hin enska árás Sikileyjarvarnar í vel tefldri skák af beggja hálfu. Magnús hafði þó sigur að lokum og tryggði sér þar með sigurinn í mótinu með 5,5 vinning eins og fyrr segir. Þess má geta að Magnús var einmitt með besta samanlagðan árangur í mótum Bikarsyrpunnar á síðasta tímabili.

20170827_160339

Enn einni langri, strangri og skemmtilegri Bikarsyrpuhelgi er því lokið og þökkum við í TR öllum keppendum fyrir þátttökuna. Hér að neðan er hlekkur inn á öll úrslit helgarinnar sem og skákir mótsins og myndaalbúm. Til að skoða skákirnar má t.d. notast við forritið Chessbase Reader sem er frítt og hægt að nálgast hér. Næsta mót syrpunnar fer fram helgina 29. september – 1. október.