36 keppendur eru skráðir til leiks í fimmta og síðasta mót vetrarins í Bikarsyrpu TR sem er næstamesta þátttaka frá upphafi. Fyrsta umferð fór fram í dag og báru krakkarnir sig afar fagmannlega að við skákborðin enda mörg hver orðin reynd í bransanum. Venju samkvæmt samanstendur keppendalistinn af mjög reynslumiklum krökkum í bland við aðra sem eru að stíga sín fyrstu skref í kappskákmóti.
Þrátt fyrir að úrslit fyrstu umferðar hafi verið nokkuð eftir hinni títtnefndu bók, þá urðu til margar baráttuskákir á borðunum köflóttu og ljóst er að það verður ekkert gefið eftir í komandi orrustum helgarinnar. Önnur umferð hefst á morgun laugardag kl. 10 og eru áhorfendur hvattir til að mæta og fylgjast með þessum glæsilega hópi að störfum við taflborðin. Alltaf heitt á könnunni!
Á Chess-Results má finna öll úrslit í mótinu.