Líf og fjör á Páskaeggjamóti TR20180325_130248

Hann var fjörugur í gær, sunnudagurinn í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur því strax að loknum æfingatíma framhaldshópsins hjá Birni Ívari var flautað til leiks í Páskaeggjamóti félagsins þetta árið. Tæplega 30 börn úr 1.-3. bekk báru páskaandann í skauti sér er þau gengu hvert af öðru inn á keppnisvöllinn með blik eftirvæntingar í augum yfir því að hefja leik á hinum töfrandi 64-reita borðum. Ein og ein augu sáust jafnvel gjóast í átt að ljúffengum súkkulaðieggjum sem stóðu eins og hnarreistar styttur á listfengu skrautborði.

Rétt tæplega rúmlega á slaginu 12.30 var blásið í herlúðra, parað var í fyrstu umferð og keppendur skutust eins og eldingar í sæti sín, líkt og þeir hefðu aldrei gert neitt annað áður. Eftir góða yfirferð æðsta stjórnanda mótsins, Kjartans Maack, um helstu reglur var sett í gírinn og göldróttir taflmenn hófu för sína um hina ferningslaga vígvelli undir öruggri stjórn lipra fingra barnanna. Úr varð spennandi og drengileg barátta þar sem kóngar voru mátaðir og menn felldir þvers og kruss en þegar hinstu orrustunni lauk í sjöttu og síðustu umferð var það Einar Dagur Brynjarsson sem tróndi einn á toppnum með fullt hús vinninga. Egill Breki Pálsson kom næstur með 5 vinninga og þá fylgdu Matthías Björgvin Kjartansson og Guðrún Fanney Briem, bæði með 4,5 vinning þar sem Matthías var hærri á mótsstigum.

Verðlaun voru veitt fyrir þrjú efstu sætin ásamt stúlkna- og árgangaverðlaunum og að auki voru tveir heppnir dregnir út í happdrætti.

Verðlaunahafar í 1.-3. bekk.

Verðlaunahafar í 1.-3. bekk.

Verðlaunahafar í 1.-3. bekk:

1. sæti Einar Dagur Brynjarsson, 2. sæti Egill Breki Pálsson, 3. sæti Matthías Björgvin Kjartansson, efst stúlkna Guðrún Fanney Briem, 2009 Markús Orri Jóhannsson, 2010 Gunnar Aðalsteinn Jóhannsson, 2011 Jón Björn Margrétarson.

Víkur þá sögunni að stærri páskaungunum, alltsvo þeim hinum sömu og dvelja við nám í 4.-7. bekk, því þegar klukkan nálgaðist 15 (páska)hanagöl tóku þeir að streyma inn í salarkynnin verulega hungraðir í taflmennsku og jafnvel enn frekar í listilega sköpuð egg unnin úr ljúffengu súkkulaði. Einhver hafði það á orði að þarna væru “fallbyssurnar” mættar til leiks! Öllu má nafn gefa en hvað sem því líður voru margir af öflugustu skákkrökkum landsins í þessum aldurshópi komnir til að freista gæfunnar við skákborðin og næla sér í eins og eitt súkkulaðistykki sem lítur út alveg eins og egg.

Skákprinsessurnar Iðunn Helgadóttir og Katrín María Jónsson etja hér kappi.

Skákprinsessurnar Iðunn Helgadóttir og Katrín María Jónsdóttir etja hér kappi.

Úr varð hin mesta skemmtun og var spennan nánast óbærileg á köflum – jafnvel ólögleg á sjálfri páskahátíðinni. Slíkt var rafmagnið í loftinu að oftar en ekki þurfti sérstakan dómara til að fylgjast með á efstu borðum og skera úr um hádramatísk atriði en allt fór þó vel fram og var keppendahópurinn páskaandanum svo sannarlega til sóma.

Þegar upp var staðið hafði Benedikt Briem sigur eftir miklar baráttuskákir utan þeirrar síðustu þegar súkkulaðiþörfin var farin að segja vel til sín en þá sömdu hann og félagi hans, norðan Kópavogslæks, Árni Ólafsson svokallað páskajafntefli. Þar með var Benedikt einn efstur með 5,5 vinning en næstur honum með 5 vinninga kom liðsfélagi hans og frændi, Örn Alexandersson. Jöfn með 4,5 vinning voru síðan Gunnar Erik Guðmundsson, Árni Ólafsson og Batel Goitom Haile þar sem sá fyrstnefndi var hæstur á mótsstigum.

Verðlaunahafar í 4.-7. bekk.

Verðlaunahafar í 4.-7. bekk.

Verðlaunahafar í 4.-7. bekk:

1. sæti Benedikt Briem, 2. sæti Örn Alexandersson, 3. sæti Gunnar Erik Guðmundsson, efst stúlkna Batel Goitom Haile, 2005 Árni Ólafsson, 2006 Benedikt Þórisson, 2007 Rayan Sharifa, 2008 Katrín María Jónsdóttir.

Sannarlega vasklega framganga hjá börnunum á Páskaeggjamóti TR þetta árið og ljóst að efniviðurinn er mikill. Við þökkum fyrir okkur og sjáumst að ári. Gleðilega páska!