Barna- og unglingaæfingar Taflfélags Reykjavíkur hófust um síðastliðna helgi en á sama tíma fór fram Íslandsmót barna tíu ára og yngri þar sem margir fastagesta æfinganna voru meðal þátttakenda. Laugardagsæfingarnar halda áfram í dag og verður þá kynnt til leiks örlítið breytt fyrirkomulag byrjendaæfinganna sem hafa mælst mjög vel fyrir. Með breytingunni er vonast til að betur verði komið til móts við ólíkar þarfir krakkanna sem eru komin mislangt á allra fyrstu stigum skáklistarinnar.
Breytingin felst í því að kl. 11-11.40 verður áherslan á þau börn sem eru að stíga sín allra fyrstu skref, þ.e. farið verður yfir mannganginn, virði mannanna og grundvallarreglur skákarinnar. Kl. 11.45-12.25 verður áherslan síðan á þau börn sem eru komin örlítið lengra, þ.e. farið verður yfir hvernig hentug uppstilling mannanna er í byrjun tafls, hvernig skal máta, hvernig skal nota skákklukku og hvernig framkomu skal sýna við skákborðið.
Skákæfingarnar fara fram alla laugardaga yfir vetrartímann í húsnæði félagsins að Faxafeni 12 (gengið inn að norðanverðu). Ókeypis er á æfingarnar sem eru opnar öllum börnum (fæddum 2002 og síðar) en félagsmenn fá ítarlegri kennslu sbr. dagskrá hér að neðan. Ekki þarf að skrá börnin fyrirfram á æfingarnar. Á vef T.R. er að finna nánari upplýsingar um æfingarnar og fylgja hér að neðan nokkrir tenglar sem gott er að líta á.
Dagskrá veturinn 2014-2015
- 11.00-11.40 Byrjendaflokkur I
- 11.45-12.25 Byrjendaflokkur II
- 12.30-13.45 Skákæfing stúlkna/kvenna
- 14.00-15.15 Skákæfing fyrir börn fædd 2002 og síðar (opnar æfingar)
- 15.15-16.00 Félagsæfing fyrir börn fædd 2002 og síðar
- Laugardagsæfingar T.R.
- Kennsluefni æfinganna
- Dagskrá T.R.
- Skráning í T.R