Kristján Dagur og Óttar Örn efstir á lokamóti Bikarsyrpu TR



Verðlaunahafar. Óttar, Kristján, Sara, Rayan, Benedikt og Ingvar.

Verðlaunahafar. Óttar, Kristján, Sara, Rayan, Benedikt og Ingvar.

Kristján Dagur Jónsson og Óttar Örn Bergmann komu jafnir í mark með 6 vinninga á fimmta og síðasta móti Bikarsyrpunnar þennan veturinn en Kristján telst siguvegari mótsins þar sem hann var ofar á mótsstigum. Til marks um það hve jafnt mótið var fylgdu fjórir keppendur með 5 vinninga; Rayan Sharifa, Benedikt Þórisson, Árni Ólafsson og Ingvar Wu Skarphéðinsson þar sem Rayan hlaut bronsið. Efst stúlkna var Sara Sólveig Lis sem hlaut 3,5 vinning.

Að móti loknu voru afhent verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í bestum samanlögðum árangri í mótum Bikarsyrpunnar í vetur en í þeim verðlaunaflokki þurfa keppendur að vera félagsmenn í Taflfélagi Reykjavíkur. Þar var Kristján Dagur nokkuð örugglega efstur og hlut fyrir vikið veglegan farandbikar, fimm tíma í einkakennslu hjá félaginu og inneign hjá nágrönnum TR í Spilavinum. Þeir Benedikt og Ingvar Wu komu næstir með jafnmarga vinninga (26 sé miðað við öll fimm mótin) en Benedikt hlýtur annað sætið á mótsstigum (155 gegn 139,5). Fyrir þennan glæsilega árangur hljóta þeir að launum einkatíma hjá félaginu.

Kristján Dagur Jónsson stóð sig manna best í Bikarsyrpu vetrarins.

Kristján Dagur Jónsson stóð sig manna best í Bikarsyrpu vetrarins.

Við óskum sigurvegurum vetrarins til hamingju með árangurinn og þökkum öllum fyrir þátttökuna í mótunum, bæði keppendum sem og þeirra forráðamönnum. Lokastöðuna ásamt úrslitum allra mótanna má finna á Chess-Results.

b5-18-19