Kristján Dagur og Ingvar Wu sigurvegarar í Bikarsyrpu helgarinnar



 

Verðlaunahafarnir. Ingvar, Kristján og Benedikt.

Verðlaunahafarnir. Ingvar, Kristján og Benedikt.

Kristján Dagur Jónsson og Ingvar Wu Skarphéðinsson komu fyrstir í mark í æsispennandi móti Bikarsyrpunnar sem fram fór nú um helgina. Báðir hlutu þeir 6 vinninga úr skákunum sjö en Kristján var ofar á mótsstigum (tiebreakes) og hlýtur því fyrsta sætið. Þriðji í mark með 5,5 vinning var Benedikt Þórisson og efstar stúlkna með 3,5 vinning voru Sara Sólveig Lis og Soffía Arndís Berndsen þar sem Sara var sjónarmun ofar á mótsstigum og hlýtur því stúlknaverðlaunin.

Sara Sólveig og Kristján Dagur. Mynd: Helgi Árnason

Sara Sólveig og Kristján Dagur. Mynd: Helgi Árnason

Er þetta annað mótið í röð sem Kristján Dagur nær í fyrsta sætið en að þessu sinni réðust úrslit ekki fyrr en að síðustu viðureignum var lokið. Mótið var afar jafnt og spennandi en eftir sigur Benedikts á Kristjáni í fimmtu umferð var staða þess fyrrnefnda orðin vænleg á toppnum. Í næstsíðustu umferð hafði Benedikt svart gegn Ingvari og var með vænlega stöðu liði yfir þegar Ingvar fékk skyndilega tækifæri á að loka svörtu drottninguna inni. Ingvar var ekki lengi að nýta sér það og eftir að sú svarta féll var eftirleikurinn auðveldur fyrir hvítan. Á sama tíma lagði Kristján Adam Omarsson og þar með voru Kristján, Ingvar og Óttar Bergmann Sigfússon efstir og jafnir með 5 vinninga fyrir lokaumferðina. Svo fór að lokum að Ingvar hafði betur gegn Óttari og Kristján vann Aðalbjörn Þór Kjartansson og niðurstaðan því ljós.

20180902_130353

Öll úrslit ásamt lokastöðu má skoða hér.

Nú verður smá hlé á Bikarsyrpunni en þriðja mótið fer fram 8.-10. febrúar. Á meðan verður hinsvegar úr nægu að velja en mótaáætlun í heild sinni má skoða hér.

Sjáumst í næstu Bikarsyrpu!