Tölvuteksmótinu – Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur lauk á miðvikudagskvöld þegar níunda og síðasta umferð var tefld við góðar aðstæður í húsnæði félagsins að Faxafeni 12. Alþjóðlegi meistarinn, Jón Viktor Gunnarsson, hafði þegar tryggt sé sigur en hann hafði 1,5 vinnings forskot á næsta keppanda þegar umferðin hófst. Baráttan um 2. sætið stóð á milli alþjóðlega meistarans, Sævars Bjarnasonar, stórmeistara kvenna, Lenku Ptacnikovu, og Fide meistarans, Einars Hjalta Jenssonar. Daði Ómarsson og Kjartan Maack börðust um meistaratitil T.R.
Svo fór að Jón og Sævar gerðu jafntefli sín í milli en Lenka vann Mikael Jóhann Karlsson örugglega og Einar hjalti tapaði nokkuð óvænt fyrir Kjartani. Þar með var ljóst að Lenka tryggði sér 2. sætið og Sævar fylgdi á eftir í 3. sætinu. Einar Hjalti varð fjórði og Daði fimmti og þar með Skákmeistari T.R. í fyrsta sinn.
Sigur Jóns Viktors var afar öruggur og raunar aldrei í neinni hættu. Eftir sigur í fyrstu fjórum umferðunum gerði hann jafntefli í þremur af síðustu fimm sem dugði vel til að halda toppsætinu allan tímann. Lenka byrjaði rólega en sigrar í síðustu fjórum tryggðu henni sanngjarnt 2. sæti og þá er ánægjulegt að sjá Sævar taka 3. sætið en hann hefur líklega átt sitt besta mót í nokkurn tíma og hækkar um 26 stig fyrir árangurinn.
Daði ber nú í fyrsta sinn meistaratitil félagsins og bætist þar í fríðan flokk hátt í fimmtíu skákmanna. Góður árangur hjá Daða sem virðist aftur kominn á fullt í taflmennskunni eftir stutt hlé. Þá er vert að nefna ágætan árangur hins unga og efnilega, Mikaels Jóhanns Karlssonar, sem hlaut 3 vinninga og hækkar um 19 stig. Sannarlega dýrmæt reynsla fyrir Mikael og vel nýtt tækifæri í keppendaflokki þar sem hann var langstigalægsti keppandinn.
Í B-flokki sigraði annar ekki síður efnilegur skákmaður, Dagur Ragnarsson, sem var í forystu allan tímann og tapaði ekki skák. Dagur fylgir þar með eftir góðum árangri í B-flokki síðan í fyrra þegar hann missti af efsta sætinu í síðustu umferðinni. Félagar hans úr Fjölni, Jón Trausti Harðarson og Oliver Aron Jóhannesson, fylgdu á eftir í 2. og 3. sæti og raunar náði enginn að veita þeim þremur nokkra keppni. Árangur Jóns Trausta er eftirtektarverður en hann hækkar um heil 41 stig og var með besta stigalega árangurinn í flokknum.
Því miður setti nokkuð strik í reikninginn að tveir keppendur hættu þátttöku í B-flokknum sem alltaf er miður gagnvart öðrum keppendum en ástæðurnar fyrir úrsögn úr miðjum mótum eru auðvitað misjafnar og sem betur fer gerist slíkt ekki oft.
Opni C-flokkurinn var mest spennandi flokkurinn þar sem ör skipti voru á toppnum. Líkt og svo oft einkenndist flokkurinn af yngstu kynslóð efnilegra skákmanna og svo fór að hinn tólf ára, Dawid Kolka, stóð uppi sem sigurvegari. Góður árangur hjá Dawid sem hækkar um 21 stig. Hilmir Freyr Heimisson og Bjarnsteinn Þórsson komu jafnir í mark í 2.-3. sæti þar sem Hilmir er ofar eftir stigaútreikning.
Tölvutek var að þessu sinni aðalstyrktaraðili Haustmótsins og kann félagið þeim hinar bestu þakkir fyrir stuðninginn. Skákstjórn var í höndum Ólafs S. Ásgrímssonar og Ríkharðs Sveinssonar.
Verðlaunahafar
Skákmeistari T.R.: Daði Ómarsson
A-flokkur
1. sæti Jón Viktor Gunnarsson – 100.000 kr
2. sæti Lenka Ptacnikova – 20.000 kr auk spjaldtölvu frá Tölvutek
3. sæti Sævar Jóhann Bjarnason – 10.000 kr auk spjaldtölvu frá Tölvutek
4. og 5. sæti Einar Hjalti Jensson og Daði Ómarsson – Ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2013
B-flokkur
1. sæti Dagur Ragnarsson – 20.000 kr og þátttökuréttur í A-flokki að ári
2. og 3. sæti Jón Trausti Harðarson og Oliver Aron Jóhannesson – Ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2013
Opinn flokkur
1. sæti Dawid Kolka – 10.000 kr og þátttökuréttur í lokuðum flokki að ári
2. og 3. sæti Hilmir Freyr Heimisson og Bjarnsteinn Þórsson – Ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2013
Mestu stigahækkanir
Stigakóngur: Gauti Páll Jónsson, 44 stig
Jón Trausti Harðarson, 41 stig
Sævar Bjarnason, 26 stig
Dawid Kolka, 21 stig