Jón Viktor og Einar Hjalti efstir fyrir lokaumferð SÞR



Það stefnir í spennandi lokaumferð í Skákþingi Reykjavíkur en forystusauðirnir, alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson og Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson, gerðu báðir jafntefli í áttundu umferðinni sem fram fór í gærkvöldi.  Jón Viktor gerði nokkuð óvænt jafntefli við Harald Baldursson í spennandi viðureign þar sem Haraldur átti undir högg að sækja í lok skákarinnar og Einar Hjalti og Fide meistarinn Davíð Kjartansson skildu að skiptum hlut í viðureign þar sem hvorugur ætlaði að sætta sig við jafntefli sem varð þó ekki umflúið í lokin.

Jón Viktor og Einar Hjalti hafa nú 7 vinninga hvor, vinningi meira en Davíð, Þorvarður Fannar Ólafsson, stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova, Jón Trausti Harðarson og Oliver Aron Jóhannesson.  Lenka sigraði Örn Leó Jóhannsson, Þorvarður vann Dag Ragnarsson, Jón Trausti lagði Júlíus L. Friðjónsson og Oliver Aron hafði betur gegn Atla Jóhanni Leóssyni.  Það er við hæfi hversu vel Jón Trausti hefur staðið sig í mótinu en hann fylgir hér eftir mjög öflugri frammistöðu í Haustmóti T.R.

Fimm keppendur koma næstir með 5,5 vinning og ellefu keppendur hafa 5 vinninga.  Það er ljóst að lokaumferðin, sem fer fram á sunnudag, verður afar spennandi og þá ekki einvörðungu á toppnum því baráttan um stigaverðlaun er einnig hörð.  Veitt eru verðlaun fyrir bestan árangur keppenda undir 2000, 1800 og 1600 Elo stigum sem og bestan árangur stigalausra keppenda.  Þá er vert að geta þess að ákveðið var að koma til móts við ábendingar keppenda um fjölda verðlaunaflokka og því verða einnig veitt verðlaun fyrir bestan árangur keppenda undir 1200 stigum.

Umferðin hefst kl. 14 og þá mætast m.a. nafnarnir Jón Trausti og Jón Viktor, Einar Hjalti og Lenka, sem og Oliver Aron og Davíð. 

  • Úrslit, staða og pörun
  • Skákir: 1 2 3 4 5 6 7 8 9
  • Myndir
  • Mótstöflur SÞR
  • Skákmeistarar Reykjavíkur