Jón Úlfljótsson steig ekki feilspor á Þriðjudagsmóti TR þann 4. október síðastliðinn, og vann allar sínar skákir fimm að tölu. Græðir hann 17 stig fyrir það. Næstir í röðinni urðu þeir Brynjólfur Sigurjónsson, Egill Gautur Steingrímsson, Kristófer Orri Guðmundsson og Magnús Sigurðsson með fjóra vinninga. Mótið var vel sótt, 29 manns mættu til leiks þetta kvöldið, en mætingin hefur undanfarið verið í kringum 30.
Stigastökkvari mótsins og sá sem var með langbestan árangur miðað við eigin stig, var Egill Gautur með 1188 stig og árangur upp á 1809 stig. Hækkar hann um 69 stig fyrir árangurinn, og fær inneign í Skákbúðina í verðlaun, ásamt Jóni.
Öll úrslit mótsins má nálgast á chess-results.
Tímaritið Skák var haft til sölu samhliða mótinu, en síðan má nálgast það á skákhátíð íslenskra skákmanna, Íslandsmóti skákfélaga, sem haldið verður í Egilshöll um helgina.
Næsta þriðjudagsmót er í kvöld klukkan 19:30. Öll velkomin.