Jólaskákmót T.R. og Í.T.R. – Úrslit í eldri flokki



Rimaskóli og Engjaskóli sigurvegarar

Mánudaginn 6. desember kl. 17 fór Jólaskákmót Íþrótta-og tómstundaráðs Reykjavíkur og Taflfélags Reykjavíkur í eldri flokki fram. Það var fyrir nemendur úr 8.- 10. bekkjum grunnskóla Reykjavíkurborgar. Verðlaun voru fyrir þrjár efstu drengjasveitirnar (eða opnu sveitirnar, þar sem sveitirnar eru blandaðar stúlkum og drengjum) og þrjár efstu stúlknasveitirnar. Teflt var í einum flokki, 6 umferðir eftir Monradkerfi með 15. mínútna umhugsunartíma. 11 sveitir voru skráðar til leiks og þar af 1 stúlknasveit.

 

Í samanburði við þátttökuna í fyrra, þá voru sveitirnar tveimur færri en árið 2009 og athygli vakti að skólar sem tóku þátt í fyrra með góðum árangri voru ekki með að þessu sinni, svo sem Hólabrekkuskóli sem varð 2. sæti í fyrra, Fellaskóli, Ölduselsskóli og Hlíðaskóli. Álftamýrarskóli kom sterkur inn mótið að þessu sinni með tvær sveitir, svo og Rimaskóli sem ekki tók þátt í eldri flokknum í fyrra. Laugalækjarskóli var með tvær sveitir eins og Engjaskóli, sem var sá eini sem tefldi fram stúlknasveit. Hagaskóli var með þrjár sveitir að þessu sinni, en var með heilar 6 sveitir í fyrra, þar af eina stúlknasveit.

 

Nokkur einstefna var í þessum flokki, þar sem A-sveit Rimaskóla lagði hverja sveitina af fætur annari með fullu húsi! Sigurinn vannst örugglega með 24 vinningum af 24 og lét Ólafur H. Ólafsson skákstjóri þau orð falla í lok mótsins að aðeins í undantekningartilfellum hafi þetta gerst áður. En hann hefur séð um skákstjórn á þessum Jólamótum frá árinu 1982! Tveir drengir úr Rimaskólasveitinni áttu einmitt þátt í sams konar sigri Rimaskóla í yngri flokknum í fyrra! Það eru þeir Jón Trausti Harðarson og Dagur Ragnarsson sem nú tefldu á 1. og 2. borði.

 

Í öruggu 2. sæti var svo Laugalækjarskóli með 18 vinninga, sem tefldi fram “nýrri” sveit í þessum flokki, en Laugalækjarskóli vann þetta mót í fyrra með liðsmönnum sem að mestu leyti er komnir upp úr grunnskóla. Í þriðja sæti var svo A-sveit Hagaskóla með 13,5 vinning. Sveitirnar frá Hagaskóla setja alltaf skemmtilegan og segja má hátíðlegan svip á keppnina með sínum hefðbundna klæðnaði, en drengirnir mæta iðulega í hvítri skyrtu og með bindi eða slaufu á skákmótið.

 

Eins og áður sagði var einungis ein stúlknasveit með. Það er verðugt verkefni fyrir skólana að hvetja stúlkurnar á unglingastiginu til þátttöku í skákmótum og mæta með stúlknasveitir að ári liðnu til að auka keppni í stúlknaflokknum. Stúlkurnar úr Engjaskóla, með Elínu Nhung Reykjavíkurmeistarara stúlkna 2010 á 1. borði, sátu því einar að verðlaununum í stúlknaflokki að þessu sinni. 

 

Jólaskákmótið fór fram í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur. Mótsstjóri var Soffía Pálsdóttir, ÍTR. Skákstjórar voru Ólafur H. Ólafsson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir. Birna Halldórsdóttir sá um veitingar á meðan mótinu stóð.

 

Heildarúrslit í eldri flokki (8.-10. bekkur) urðu sem hér segir:

 

1. Rimaskóli A-sveit                  24 v. af 24.

2. Laugalækjarskóli A-sveit       18 v.

3. Hagaskóli A-sveit                 13,5 v.

4. Laugalækjarskóli B-sveit       13 v.

5. Álftamýrarskóli B-sveit          12,5 v.

6. Hagaskóli C-sveit                 12 v.

7. Rimaskóli B-sveit                  11,5 v.

8. Engjaskóli A-sveit                 10,5 v.

9. Álftamýrarskóli A-sveit          10 v.

10. Hagaskóli B-sveit                9,5 v.

11. Engjaskóli-stúlkur               9,5 v.

 

Rimaskóli A sveit:

  1. Jón Trausti Harðarson
  2. Dagur Ragnarsson
  3. Hrund Hauksdóttir
  4. Kristinn Andri Kristinsson

 

Laugalækjarskóli:

  1. Rafnar Friðriksson
  2. Garðar Sigurðarson
  3. Jóhannes Kári Sólmundarson
  4. Ingvar Ingvarsson

 

Hagaskóli A-sveit:

  1. Kristján Daði Finnbjörnsson
  2. Sindri Ingólfsson
  3. Ólafur Haraldsson
  4. Guðmundur Þ. Guðmundsson

1. varam. Fróði Guðmundsson

 

Engjaskóli-stúlkur:

  1. Elín Nhung Viggósdóttir
  2. Ásdís Aðalsteinsdóttir
  3. Arndís Einarsdóttir
  4. Filipia Geirsdóttir