Jóladagatal TR – #6 Askasleikir



Á hverjum degi til jóla birtist ein skákþraut á taflfelag.is. Alls verða þrautirnar þrettán talsins, í takt við jólasveinana. Síðasta þrautin mun birtast á Þorláksmessu. Þeir sem ná að leysa þrautirnar geta skilað lausnunum á netfangið bivark@gmail.com í síðasta lagi kl. 20:00 að kvöldi Jóladags, 25. desember. Fram þarf að koma nafn þess sem sendir lausnirnar inn. Dregið verður úr bestu lausnunum og sigurvegarinn fær veglegan jólaglaðning. Jóladagatal TR er ætlað öllum þeim sem eru áhugasamir um skák.

askasleikir

Mynd: Búi Kristjánsson

Askasleikir hefur síðan í haust verið í vikulegum einkatímum hjá Þvörusleiki, bróður sínum. Viðfangsefni þeirra hafa verið endatöfl en Askasleikir hafði fram að þessu aldrei nennt að eyða neinum tíma í þau. Honum fundust endatöfl alltaf svo leiðinleg. Nú þegar aðeins er farið að rofa til í endatöflunum hjá Askasleiki er hann farinn að átta sig á því að það skiptir miklu máli að kunna endatöfl ef maður ætlar sér að verða góður í skák. Eftir stóra veislu í Grýluhelli í lok nóvember skoraði Grýla á Askasleiki í skák upp á það hver ætti að sjá um uppvaskið eftir matinn. Skákin var í járnum frá byrjun og var svo spennandi að bræðurnir og Leppalúði stóðu hugfangnir í kringum þau og fylgdust með, enda var mikið í húfi – hvorugt þeirra nennti að vaska upp. Í endataflinu sem kom upp hafði Grýla, sem stýrði svörtu mönnunum, töluvert betri kóngsstöðu en á sama tíma treysti Askasleikir á framsækin peð á kóngsvængnum og vonaðist til þess að geta unnið með lítilli brellu sem Þvörusleikir hafði kennt honum og kallaði gegnumbrot.

askasleikir-stodumynd

Geturðu fundið vinningsleið fyrir hvítan sem olli því að bálreið og tapsár Grýla vaskaði upp í hellinum það kvöldið?

Gryla