Jóladagatal TR – #11 Gáttaþefur



Á hverjum degi til jóla birtist ein skákþraut á taflfelag.is. Alls verða þrautirnar þrettán talsins, í takt við jólasveinana. Síðasta þrautin mun birtast á Þorláksmessu. Þeir sem ná að leysa þrautirnar geta skilað lausnunum á netfangið bivark@gmail.com í síðasta lagi kl. 20:00 að kvöldi Jóladags, 25. desember. Fram þarf að koma nafn þess sem sendir lausnirnar inn. Dregið verður úr bestu lausnunum og sigurvegarinn fær veglegan jólaglaðning. Jóladagatal TR er ætlað öllum þeim sem eru áhugasamir um skák.

gattathefur

Mynd: Búi Kristjánsson

Gáttaþefur er klókur varnarskákmaður. Langt og næmt nef hans hefur oft bjargað honum úr erfiðum stöðum þegar það hefur þefað uppi varnarhugmyndir sem engum öðrum dettur í hug. Á Friðriksmóti Landsbankans, Íslandsmótinu í hraðskák, hafði Gáttaþefur hvítt gegn öflugum, metnaðarfullum og prúðbúnum skákmeistara, vararitara Skáksambands Íslands, varaformanni TR og miklum félagsmálamanni í skákhreyfingunni. Staða Gáttaþefs var búin að vera koltöpuð lengi og bæði andstæðingur hans og áhorfendur í kring gátu ekki leynt brosi sínu yfir því hvað Gáttaþefur þráaðist lengi við með tapað tafl. Vararitarinn lék síðast …Db6 og hótaði með þeim leik biskup Gáttaþefs á b8,  peðinu á a6 og auk þess máti á f2. Nú bjuggust flestir við því að sveinki myndi gefast upp en þá kom Gáttaþefur öllum á óvart með snilldarlegum varnarleik sem bjargaði skákinni í jafntefli með pattgildru.

gattathefur-stodumynd

Hverju lék hvítur sem tryggði jafntefli? (Þess má geta að vararitarinn handsalaði jafnteflið með bros á vör enda teflir hann meira fyrir ánægjuna og fegurðina heldur en úrslitin sjálf)