Jóladagatal TR – #1 Stekkjastaur



Á hverjum degi til jóla birtist ein skákþraut á taflfelag.is. Alls verða þrautirnar þrettán talsins, í takt við jólasveinana. Síðasta þrautin mun birtast á Þorláksmessu. Þeir sem ná að leysa þrautirnar geta skilað lausnunum á netfangið bivark@gmail.com í síðasta lagi kl. 20:00 að kvöldi Jóladags, 25. desember. Fram þarf að koma nafn þess sem sendir lausnirnar inn. Dregið verður úr bestu lausnunum og sigurvegarinn fær veglegan jólaglaðning. Jóladagatal TR er ætlað öllum þeim sem eru áhugasamir um skák.

stekkjastaur

Mynd: Búi Kristjánsson

Stekkjastaur sat niðurlútur við taflborðið og klóraði sér í kollinum. Skákþrautin sem hann var að glíma við reyndist honum erfið. Mát í þremur leikjum – hann gat ómögulega fundið lausnina. Stekkjastaur hafði alltaf verið frekar stífur og stirður í taktík. Leppalúði, pabbi hans, hafði einu sinni sagt við hann að hann væri ,,blindari en moldvarpa“ og að það væri ekki til „taktískur þráður í jólasveinabúningnum hans!“  Stekkjastaur starði á stöðuna fyrir framan sig og reyndi að rifja upp ráðin þrjú sem pabbi hans hafði reynt að kenna honum að nota í taktískum stöðum: Þvingandi leikir – Skáka, drepa og hóta.

,,Ég ætla að byrja á því að hugsa um allar skákir sem koma til greina og þá hlýt ég að finna mát í þremur!“, sagði hann við sjálfan sig og hugsaði stíft.

stekkjastaur-stöðumynd

Geturðu fundið mátið í þremur leikjum fyrir hvítan með því að notast við þvingandi leiki?

Skráðu hjá þér lausnirnar á hverjum degi til jóla og sendu inn á bivark@gmail.com ásamt nafninu þínu og þú gætir unnið veglegan jólaglaðning!