Alþjóðlegi meistarinn, Guðmundur Kjartansson (2413), gerði jafntefli við nafna sinn Gíslason (2348), í skák sem lauk ekki fyrr en eftir 134 leiki. Staða Guðmundar K. var orðin nokkuð erfið í miðtaflinu og fór svo að hann fórnaði skiptamun til að koma í veg fyrir að Guðmundur G., sem hafði hvít, gæti bætt stöðu sína enn frekar. Við það lagaðist staða Guðmundar K. nokkuð og hafði hann sterkt frípeð á c-línunni ásamt tveim virkum biskupum gegn hróki og biskup nafna síns frá Bolungarvík. Eftir þetta gerðist lítið markvert í skákinni og eftir 87 leiki hafði Guðmundur K. kóng og biskup gegn kóngi og hróki Guðmundar G. Bolvíkingurinn reyndi að hafa sigur allt þar til að hann hafði leikið sínum 134. leik en þá var samið um skiptan hlut. Rétt er að geta þess að hann hefði aðeins fengið að reyna í þrjá leiki til viðbótar því eftir það hefði skákin verið dæmd jafntefli á grundvelli 50 leikja reglunnar sem kveður á um að sé peði ekki leikið eða maður drepinn í 50 leikjum í röð sé skákin jafntefli.
Guðmundur er með 1,5 vinning í 10.-12. sæti en efstur með 5 vinninga er stórmestarinn, Henrik Danielsen (2473).
Í sjöundu umferð sem hefst á morgun kl. 16 hefur Guðmundur hvítt gegn Fide meistaranum, Ingvari Þ. Jóhannessyni (2323).
- Heimasíða SÍ
- Chess-Results
- Skákirnar í beinni