Íslandsmótið í fullum gangi – níu úr T.R. taka þátt



Skákþing Íslands hófst rétt fyrir páska og er enn í fullum gangi en dagskráin er mjög þétt og er nánast teflt á hverjum degi.  Að þessu sinni fer mótið fram í Mosfellsbæ þar sem teflt er í íþróttamiðstöð bæjarins að Lágafelli.

Líkt og áður er mótinu skipt í lokaðan tólf manna landsliðsflokk og opinn áskorendaflokk.  Í landsliðsflokki tefla allir við alla en í áskorendaflokki eru tefldar níu umferðir eftir svissneska kerfinu.  Tímamörk á hverja skák eru hin alþjóðlegu tímamörk Fide, 90 mínútur + 30 sekúndur á hvern leik fyrstu 40 leikina og síðan 30 mínútur + 30 sekúndur til að klára.

Meðalstig landsliðsflokks í ár eru 2349 Elo-stig sem er lítið eitt lægra en undanfarin þrjú ár sem aftur var farið að tefla allir við alla í stað útsláttarkeppni árin á undan.  Óvenju mikið var um forföll á síðustu stundu en stórmeistarinn Henrik Danielsen, alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson og Hjörvar Steinn Grétarsson drógu allir þátttöku sína til baka.  Meðal þeirra sem kom inn í stað þeirra var TR-ingurinn ungi, Daði Ómarsson, sem hefur verið í mikilli uppsveiflu að undanförnu.

Daði er stigalægstur keppenda í landsliðsflokki og því ljóst að hann á erfitt verkefni fyrir höndum.  Að loknum sjö umferðum er Daði í 11. sæti með 1,5 vinning en hann gerði m.a. jafntefli við stórmeistarann, Þröst Þórhallsson (2407).

Keppendalisti landsliðsflokks og jafnframt staðan eftir sjö umferðir (Dagur Arngrímsson er hættur þátttöku vegna veikinda):

Rk.   Name Rtg Club/City Pts.  Rp rtg+/-
1 IM Thorfinnsson Bjorn  2376 Hellir 5,5 2587 8,2
2   Gislason Gudmundur  2382 Bolungarvik 5,5 2565 23,7
3 IM Thorfinnsson Bragi  2396 Bolungarvík 5,5 2551 13,5
4 GM Stefansson Hannes  2574 Hellir 5,5 2527 -1,9
5 IM Kristjansson Stefan  2466 Bolungarvík 4,5 2485 2,4
6 FM Johannesson Ingvar Thor  2343 Hellir 4 2359 2,3
7   Olafsson Thorvardur  2206 Haukar 3 2329 7,2
8   Thorgeirsson Sverrir  2177 Haukar 2,5 2276 10,5
9 GM Thorhallsson Throstur  2407 Bolungarvík 2,5 2122 -21,9
10 FM Lagerman Robert  2347 Hellir 2 2071 -30,3
11   Omarsson Dadi  2127 TR 1,5 2120 -2,5
12 IM Arngrimsson Dagur  2383 Bolungarvík 0 1533 -7,5

Í ár eru 40 keppendur í áskorendaflokki sem er með besta móti undanfarin ár.  Langstigahæst eru Sigurbjörn Björnsson (2336) og stórmeistarinn, Lenka Ptacnikova (2317).  Átta TR-ingar eru meðal þátttakenda, þeirra stigahæstur varaformaður félagsins, Eiríkur K. Björnsson (2013).  Formaður félagsins, Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir (1810), varð að hætta þátttöku vegna veikinda.  Þá má nefna að hinn sjö ára gamli TR-ingur, Vignir Vatnar Stefánsson, er meðal keppenda en hann er einn allra efnilegasti skákmaður landsins um þessar mundir.

Að loknum fimm umferðum er Sigurbjörn efstur með fullt hús en Eiríkur er efstur TR-inga með 4 vinninga og deilir skiptu þriðja sæti.  Örn Leó Jóhannsson (1745) heldur áfram að standa sig vel og er í skiptu 6. sæti með 3,5 vinning og góðan stigagróða.  Líkt og á Reykjavíkurmótinu á Atli Antonsson (1720) ein óvæntustu úrslit mótsins en hann sigraði ofangreinda Lenku í annari umferð.  TR-ingarnir haf almennt staðið sig vel og eru flestir í ágætis stigagróða.

Öll úrslit og stöðu má sjá í tenglinum hér að neðan.

Áttunda umferð landsliðsflokks og sjötta umferð áskorendaflokks fara fram í dag.  Í landsliðsflokki hefst umferðin klukkan 17 en í áskorendaflokki klukkan 18.

  • Heimasíða mótsins
  • Chess-Results
  • Skákirnar í beinni