Íslandsmót skákfélaga: Pistill frá TR



Íslandsmót skákfélaga hefur löngu unnið sér sess sem einn af helstu skákviðburðum ársins og sá sem flestir virkir, sem minna virkir, skákmenn landsins koma að, með einum eða öðrum hætti, langflestir þó með því að tefla, sem betur fer. Taflfélag Reykjavíkur hefur undanfarin ár verið nokkuð hógvært í fyrstu deild á þessum vettvangi miðað við sum önnur félög og treyst að mestu á innlenda félagsmenn. Í ár var hins vegar ákveðið að fara nýjar leiðir og var A-sveit félagsins styrkt svo um munaði, auk þess sem félagið stóð að komu eins af nýju meðlimunum, Anatoly Karpovs fyrrum heimsmeistara, til landsins í tilefni af 111 ára afmæli félagsins sem einmitt bar upp 6. október rétt fyrir upphaf Íslandsmótsins.

Allt þetta lá ljóst fyrir áður en mótið byrjaði en ekki endilega nákvæmlega hverjir af þeim 12 sterku stórmeisturum sem höfðu bæst við á keppendaskrá TR kæmu þetta haustið. Það var dæmalaust gaman fyrir stjórnarmenn TR að fylgjast með þeim vangaveltum sem komu fram á Horninu, í skúmaskotum, reykhreinsuðum bakherbergjum, á stjórnarfundum SÍ og víðar um hverjir af þessum ofurmennum myndu tefla fyrir hönd félagsins í haust. Kann félagið vel að meta þann hlýhug og umhyggju sem kom fram í öllum þeim hugleiðingum.

Áður en keppnin hófst lá fyrir að við myndum ekki njóta krafta nokkurra fastamanna í A og B liðunum, a.mk. ekki eins miklum mæli og við hefðum óskað. Á móti komu nýjir öflugir menn um borð í A sveita; þeir Karl Þorsteins, Vasily Papin og Helgi Dam Ziska, auk þeirra Simon Bekker Jensen og Mikhail Ivanov sem hafa verið með okkur áður. Þá vantaði líka nokkra öfluga í C og D sveitirnar.

Þegar upp var staðið mátti ágætlega una við árangur A-sveitarinnar. Eftir nokkurn haustbrag í fyrstu umferð og tap fyrir SA í fyrstu umferð, sýndi sveitin karakter og vann í næstu þremur umferðum: Máta  með 5½ vinningi (liðsstjóri upplýsti suma liðsmenn um að Mátar væru allir fyrrum liðsmenn SA og upplagt að hefna sín á þeim), sjálft TV með 4½ og loks Fjölni með 5½. Sveitin situr nú í öðru sæti 1. deildar og þarf bara vænan sigur á A-sveit Taflfélags Bolungarvíkur til að hleypa spennu í keppnina í vor!

B-sveitin átti nokkuð misjafna daga. Eftir harkalegt tap gegn Víkingaklúbbnum, sem situr nú í efsta sæti deildarinnar með 1½ vinningi, lá leiðin örlítið upp á við með góðum sigri gegn Helli B með 4½ en síðan veiktist sveitin töluvert í 3. og 4. umferð. Það birtist í fremur hógværum árangri gegn neðstu sveit deildarinnar (3 vinningar) og síðan tapi gegn KR A en þar kvað svo rammt að forföllum að 1. borðs maður C liðs í 1. umferð (undirritaður) var kominn á 3. borð í B-sveit í 4. umferð. Viðureignin tapaðist 4-2 sem kann að verða dýrkeypt í mögulegum slag á milli þessara liða um 3. sætið í deildinni en miðað við stöðuna þar, má gera fastlega ráð fyrir að Víkingaklúbburinn A og Goðinn A fari upp í fyrstu deild eftir vorið. 

C og D sveitirnar liðu töluvert fyrir mannfæðina (bæði fyrirséða sem og ófyrirséða) sem kom upp í seinni umferðinni á laugardeginum og á sunnudeginum. Þannig skilaði styrkingin í A sveitinni sér ekki niður í þær sveitir, í þeim mæli sem við höfðum vonast eftir. TR C situr í 8. sæti í 4. deild og þarf að ganga afar vel í vor til að eygja einhverja möguleika á að fara upp í 3. deild. D sveitin er í 15. sæti og lenti í fremur leiðinlegum, að sumu leyti ófyrirséðum, mönnunarvandamálum í 3. og sérstaklega 4. umferð.

Unglingasveitin (E) er í 19. sæti með eina unna viðureign en þrjár tapaðar. Athyglisvert er að barnasveitin (F) er ofar (15. sæti) en allur samanburður er ósanngjarn hvað þetta varðar; góður árangur í fyrri umferðum getur þýtt að teflt er við öflugri sveitir í þeim næstu og þannig raskað niðurstöðu þegar horft er á árangur í miðju móti. Árangur F sveitarinnar lofar þó góðu og mér mun koma á óvart ef unglingasveitin verður ekki töluvert ofar í töflunni, þegar upp verður staðið í vor. Þótt sjálfsagt sé að fylgjast grannt með gengi ungmennanna og hafa metnað fyrir þeirra hönd, er þó auðvitað aðalmálið að svö stöddu að gera þeim kleift að vera með í þessum fjölmennasta skákviðburði ársins, kynnast þeim anda sem einkennir mótið og fá reynslu af alvöru keppni.

 

Eiríkur K. Björnsson